Innlent

Pendúllinn: Bakstur, brjóstamjólk og barnabók Þjóðfylkingarinnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þríeykið Snærós Sindradóttir, Stefán Óli Jónsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson er sameinað á ný eftir töluvert flakk þeirra að undanförnu. Þau eru þó ekki það eina sem hefur verið á flakki.

Fylgistölur flokkanna hafa að sama skapi verið á töluverðu reiki á síðustu dögum og reyna þáttastjórnendur Pendúlsins að gera nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands skil en þar kennir ýmissa forvitnilegra grasa. Gæti Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda talist sigurvegari kosninganna ef fer sem horfir? Ætti hann að fá stjórnarmyndunarumboðið eða væri einfaldast fyrir Guðna að láta Katrínu Jakobsdóttur reyna fyrst fyrir sér? Dóttir Unnar Brár virðist þó vel til þess fallin þrátt fyrir að vera eilítið umdeild miðað við ungan aldur.

Enn eru þó tvær vikur til kosninga og því kannski fullsnemmt að byrja strax að mynda ríkisstjórn, eins og Píratar og Viðreisn hafa verið að gera á kaffihúsum borgarinnar að undanförnu - samkvæmt öruggum heimildum Pendúlsins.

Margt getur gerst á síðustu metrunum í baráttunni eins og Íslenska þjóðfylkingin fékk að kynnast í gær þegar Gústaf og Gunnlaugur sögðu skilið við flokkinn. Kannski þarf formaðurinn Helgi bara að setja á sig ofnhanskanna og hefja bakstur. Eitt er þó víst; lengsta þingi sögunnar var slitið í gær og því getur kosningabaráttan loksins hafist af alvöru. Gæti einhver pikkað í Framsóknarmenn og bent þeim á það?

Pendúllinn er hlaðvarpsþáttur á Vísi þar sem nýjustu vendingar stjórnmálanna eru krufnar til mergjar. Þátturinn verður vikulegur og fer í loftið á hverjum föstudegi fram að þingkosningnum 29. október.

Pendúllinn er aðgengilegur á hinum ýmsu hlaðvarpsþjónustum, t.a.m. á iTunesPocket Casts eða Podcast Addict. Til að finna þáttinn er best að leita einfaldlega undir nafninu Pendúllinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×