Erlent

Pena Nieto segir Mexíkó ekki munu borga fyrir múrinn

atli ísleifsson skrifar
Mexíkó mun ekki borga fyrir múrinn sem Donald Trump segist ætla að reisa á landamærum ríkjanna á næstunni.

Þetta ítrekaði Enrique Pena Nieto Mexíkóforseti í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi.

Pena Nieto sagðist sorgmæddur yfir fyrirætlunum Trumps og bætti því við að Mexíkóar trúi ekki á slíka múra. „Ég harma og fordæmi ákvörðun Bandaríkjanna að halda áfram byggingu múrs sem hefur um margra ára skeið aðgreint okkur í stað þess að sameina okkur.“

Hann sagði þó ekkert um það hvort hann hyggist fresta opinberri heimsókn sinni til Washington sem fyrirhuguð er þann 31. janúar næstkomandi þar sem hann mun hitta Trump.

Trump undirritaði í gær tilskipun þess efnis að ókleifur múr verði reistur á landamærunum og hann endurtók við það tilefni þær fullyrðingar að Mexíkóar eigi að borga hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×