Enski boltinn

Pellegrini ver liðsval sitt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pellegrini blakar boltanum, en hann var ánægður með ungu strákana þrátt fyrir tap í dag.
Pellegrini blakar boltanum, en hann var ánægður með ungu strákana þrátt fyrir tap í dag. vísir/getty
Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, segir að ákvörðun hans á að hafa spilað á kornungu liði í 5-1 tapi gegn Chelsea í bikarnum í dag sé vegna fárra leikmanna sem hann hafi úr að spila.

City átti aldrei möguleika í dag, en stjörnumprýtt lið Chelsea skoraði fimm mörk gegn einu marki frá ungu liði Englandsmeistaranna frá því tímabilið 2014/2015.

„Mér finnst það mikilvægt fyrir unga leikmenn að spila. Þeir tóku sinn möguleika og ég var mjög ánægður. Það er aldrei gott að tapa 5-1, en mér fannst vera margir jákvæðir hlutir hjá okkar ungu leikmönnum," sagði Pellegrini í leikslok.

„Kannski er ekki gott að láta þá alla spila saman, en við höfðum ekki annara kosta völ. Við höfðum einungis þrettán leikmenn leikfæra og ef það er eitthvað lið sem virðir allar keppnir þá er það þetta lið."

Sjá einnig: Chelsea burstaði City | Sjáðu mörkin

„Það er ástæðan fyrir því að við erum í úrslitaleik enska deildarbikarsins og unnum síðustu tvo leiki í þessari keppni, en ég held að aðrir hlutir séu mikilvægari á þessum tímapunkti."

City á afar mikilvægan leik fyrir höndum á miðvikudag þegar liðið heimsækir Dynamo Kiev í Kænugarð á miðvikudag, en Pellegrini ver ákvörðun sína.

„Við eigum möguleika í fyrsta skipti í sögu félagsins að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Með þrettán leikmenn er það ekki raunhæft. Við getum ekki tekið áhættuna með 13 leikmenn."

„Ef ég hefði 20 leikmenn þá kannski, en þegar þú ert einungis með 13 leikfæra geturu ekki tekið áhættuna þegar við erum að fara í langt flug á mánudaginn. Mér fannst við gera rétt; bestu ákvörðunina fyrir félagið okkar," sagði Pellegrini að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×