Enski boltinn

Pellegrini: Yaya verður áfram hjá City

Anton Ingi Leifsson skrifar
Yaya og Pellegrini í eldlínunni.
Yaya og Pellegrini í eldlínunni. vísir/getty
Yaya Toure, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Manchester City, verður áfram í herbúðum þeirra ljósbláu samkvæmt stjóranum Manuel Pellegrini.

„Við erum ekkert að ræða það,” sagði Pellegrini aðspurður um hver staðan væri á framtíð Yaya. „Yaya er mjög mikilvægur partur af okkar liði. Kannski eru þið öll að bíða eftir að ég gagnrýni hann.”

„Yaya mun halda áfram að spila hér hjá okkur því hann er mikilvægur leikmaður fyrr mig, fyrir liðið og fyrir alla stuðningsmennina.”

Ef öll úrslit fara á versta veg fyrir City þessa helgina gætu þeir verið fimmtán stigum á eftir toppliði Chelsea, en City var sem kunnugt er Englandsmeistari í fyrra. Pellegrini er ekki byrjaður að hugsa um næsta ár, en sagt er að stjórastóll hans sé ansi heitur.

„Ég er ekki að hugsa um næsta ár. Ég er með samning hér í eitt ár til viðbótar og ég mun halda áfram minni vinnu því ég veit að ég hef stuðning eigandanna, leikmannana og stuðningsmannana. Við þurfum að standa öll saman fyrir síðustu leikina á tímabilinu.”

City mætir West Ham á morgun, en leikurinn hefst klukkan 12:30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2/HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×