Enski boltinn

Pellegrini: Agüero í sama gæðaflokki og Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Síðasta vika var afar góð fyrir Sergio Agüero en eftir að hann tryggði Manchester City sigur á Borussia Möngchengladbach með marki á lokamínútunni skoraði hann fimm mörk á 20 mínútna kafla í 6-1 sigri City á Newcastle á laugardag.

Tímabilið byrjaði rólega hjá Agüero sem fór algjörlega á kostum um helgina. Newcastle komst yfir í leiknum en City skoraði sex mörk frá 42. til 62. mínútu. Þar af skoraði Agüero fimm.

Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, segir að Agüero sé í hópi bestu leikmanna heims - með þeim Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.

„Miðað við það sem við sáum þá á Kun auðvitað heima í þeim hópi. Ég sagði í upphafi tímabils að við myndum sjá öðruvísi leikmann í ár. Hann er þroskaðri, betri atvinnumaður og gerir sér grein fyrir því að hann getur bætt sig á ýmsan hátt.“

„Þess vegna er ég svo ánægður fyrir hans hönd. Hann hefur áður fengið tækifæri til að skora en tókst ekki af ýmsum ástæðum. Ég held að eftir þennan leik verði hann með sjálfstraustið í góðu lagi.“

Agüero er nú í fámennum hópi leikmanna sem hafa skorað fimm mörk í einum leik í ensku úrvalsdeildinni. Aðrir sem hafa afrekað það eru Jermain Defoe, Dimitar Berbatov, Alan Shearer og Andy Cole. Enginn gerði þetta þó á jafn fáum mínútum og Agüero, sem var tekinn af velli á 66. mínútu leiksins vegna meiðsla.


Tengdar fréttir

Agüero slátraði Newcastle á tuttugu mínútum

Sergio Agüero setti fimm mörk á Newcastle á aðeins 20 mínútum í 6-1 sigri Manchester City í dag. Eftir að Newcastle komst óvænt yfir einfaldlega völtuðu leikmenn Manchester City yfir gestina á Etihad-vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×