Fótbolti

Pele ekki í lífshættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Pele er ekki í lífshættu eins og fullyrt var af fjölmiðlum víða um heim í dag. Hann dvelur nú á sjúkrahúsi vegna þvagfærasýkingar.

Einn talsmanna Pele, sem er 74 ára, segir að knattspyrnumanninum fyrrverandi líði vel og gæti verið útskrifaður af sjúkrahúsinu þar sem hann dvelst í Sao Paulo strax á morgun.

Hann var fluttur á sérstaka deild á sjúkrahúsinu í dag en það var ekki vegna hrakandi heilsu hans. „Vandamálið var að hann var að fá of marga gesti og það hjálpaði ekki ástandi hans,“ sagði Jose Fornos Rodrigues við globo.com.

„Hann var því fluttur á rólegra svæði þar sem hægt var að veita honum meðferð og huga að honum.“

Fyrir tveimur vikum fór hann í aðgerð á sama spítala vegna nýrnasteina og gæti verið að þvagfærasýkingin hafi komið til vegna hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×