Körfubolti

Pavel með enn eina þrennuna - KR með enn einn sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Vilhelm
KR-ingar fara taplausir í jólafrí eftir 41 stigs sigur á botnliði Fjölnis, 103-62, í Dominos-deild karla í DHL-höllinni í kvöld en þetta var lokaleikur liðanna á árinu 2014. Það stoppar ekkert KR-liðið eða Pavel Ermolinskij sem náði enn einni þrennunni í kvöld.

KR-ingar hafa því áfram fjögurra stiga forskot á toppnum en KR-liðið hefur unnið alla ellefu deildarleiki sína á leiktíðinni og virðist vera hreinlega í algjörum sérflokki.

Fjölnir stóð aðeins í KR í fyrsta leikhlutanum sem Vesturbæjarliðið vann 21-18 en KR vann annan leikhlutann 32-15 og átti ekki í miklum vandræðum með Grafarvogsliðið eftir það.

Pavel Ermolinskij náði þarna sinni fimmtu þrennu á leiktíðinni en hann endaði með 10 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar.

Michael Craion var stigahæstur hjá KR með 34 stig auk þess að taka 17 fráköst og stela fimm boltum en þeir Helgi Már Magnússon og Darri Hilmarsson skoruðu báðir 15 stig í leiknum.

Arnþór Freyr Guðmundsson var stigahæstur hjá Fjölni með 15 stig en Daron Lee Sims var með 11 stig og 12 fráköst í síðasta leik sínum í Fjölnisbúningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×