Körfubolti

Pavel: Beðið eftir þessu í allan fokking vetur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pavel fagnar eftir leik.
Pavel fagnar eftir leik. vísir/andri marinó
Pavel Ermolinskij var eðlilega kátur og glaður þegar Vísir spjallaði við hann eftir bikarsigur KR í Laugardalshöll í dag. KR vann Þór annað árið í röð og tryggði sér tólfta bikarmeistaratitil félagsins.

KR-liðið var ekkert að spila neitt stórkostlega í fyrri hálfleik en í þriðja leikhluta fór allt í gang. Hvað gerðist þar?

"Það sem við erum búnir að vera fokking bíða eftir í allan vetur; þessi litla stund sem kveikir í okkur. Eitthvað smá spark. Það kom í þriðja leikhlutanum. Við reyndum að klúðra þessu í fjórða leikhluta en það var þessi neisti í þeim þriðja sem skilaði þessu," sagði Pavel sem sjálfur fór í gang eftir að fá tæknivillu í þriðja leikhluta.

"Tæknivillan var bara óheppilegt atvik. Það var kannski eitthvað atvik sem sneri þessu. Kannski var það þessi karfa sem ég skoraði þarna eftir tæknivilluna. Við vorum alltaf að bíða eftir þessu eina atviki. Við erum búnir að vera að bíða eftir þessari stund í allan fokking vetur. Þessari stund sem fær okkur til að brosa og gera eitthvað."

Pavel og Jón Arnór héldu uppi stemningunni í KR-liðinu með látum auk þess sem að þeir spiluðu vel. Pavel viðurkennir að þetta hefur vantað upp á í vetur.

"Þetta byrjar hjá okkur tveimur. Við Jón höfum kannski ekki verið að spila alveg eins og við viljum. Þegar við bætum því við smá andleysi þá er erfitt fyrir strákana að horfa upp á þetta. Við Jón töluðum um það að það minnsta sem við getum gert er að kveikja í mönnum þó við séum ekki að spila vel," sagði Pavel sem stefnir nú á Íslandsmeistaratitilinn.

"Við erum með besta liðið á landinu, það þarf ekkert að ræða það frekar. Við þurfum ekkert að sanna það aftur og aftur. Þetta er búið að vera eitthvað andlegt hjá okkur. Við vildum finna þennan neista og bikarúrslitaleikurinn var rétti staðurinn til þess að byrja," sagði Pavel Ermolinskij.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×