Körfubolti

Paul Pierce og Doc Rivers sameinaðir á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pierce og Doc Rivers þegar þeir unnu saman í Boston.
Paul Pierce og Doc Rivers þegar þeir unnu saman í Boston. Vísir/Getty
Paul Pierce er ekkert að fara að leggja skóna sína upp á hillu á næstunni því þessi 37 ára gamli körfuboltamaður er búinn að gera þriggja ára samning við Los Angeles Clippers.

Það má ekki skrifa undir samninginn fyrr en 9. júlí næstkomandi en Paul Pierce fær 10,6 milljónir dollara fyrir þessi þrjú tímabil eða 1,4 milljarða íslenskra króna.

Paul Pierce spilaði með Washington Wizards á síðasta tímabili og það var mikill áhugi þar að fá hann til baka. Hann valdi hinsvegar frekar að snúa heim til Kaliforníu.

Pierce fór í menntaskóla í Inglewood, sem er úthverfi Los Angeles, og þá er hann að hitta fyrir þjálfara sem hann þekkir vel.

Doc Rivers þjálfaði Paul Pierce í níu ár hjá Boston Celtics frá 2004 til 2013 og þeir urðu NBA-meistarar saman 2008 þar sem Pierce var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna.

Doc Rivers og Paul Pierce yfirgáfu báðir Boston sumarið 2013. Paul Pierce samdi við Brooklyn Nets og Rivers tók við liði Los Angeles Clippers þar sem hann er enn þjálfari.

Los Angeles Clippers er með sterkt lið og líklegt til afreka á næsta tímabili og nú er liðið komið með reynslubolta í Paul Pierce sem er þekktur fyrir að spila best þegar mikið er undir. Paul Pierce er sextándi stigahæsti leikmaður NBA frá upphafi en hann er að fara að hefja sitt átjánda tímabil í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×