Enski boltinn

Clement: Mega ekki gleyma Gylfa í umræðunni um verðlaun tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea City, hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni. Clement hefur nú haldið enn eina lofræðuna í viðtali við Walesonline.

Gylfi hefur átt þátt í 19 mörkum Swansea City á tímabilinu og er sá leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur gefið flestar stoðsendingar eða ellefu talsins.

Gylfi hefur fundið sig sérstaklega vel eftir að Paul Clement tók við liðinu og síðan þá hefur Swansea tekist að koma sér upp úr fallsæti.

„Hans frammistaða er meira en nógu góð til að koma honum í umræðuna um verðlaun tímabilsins. Fólk horfir kannski framhjá honum vegna stöðu liðsins,“ segir Paul Clement í viðtalinu við walesonline.co.uk og er þá bæði að ræða verðlaun fyrir leikmann ársins og sæti í liði ársins í ensku úrvalsdeildinni.

„Þegar lið eru neðarlega í töflunni þá fá leikmenn oft ekki þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið. Gylfi er samt leikmaður sem hefur spilað virkilega, virkilega vel í vetur,“ sagði Clement sem lofar Gylfa fyrir framlag hans og vinnusemi.

„Hann hefur alla hæfileikana en sjáið síðan hvað hann vinnur líka fyrir liðið.  Hann er að alltaf að reyna að bæta sinn leik og alltaf að gera eitthvað aukalega á æfingum til að bæta tæknina, skotin eða sendingarnar,“ sagði Clement.

„Hann er líka mjög vakandi og eftirtektarsamur á vídeófundum. Hann hugsar vel um sjálfan sig og er mjög góður atvinnumaður,“ sagði Clement.






Tengdar fréttir

Óskar Hrafn: Guð hjálpi landsliðinu ef Gylfi Sigurðsson meiðist

Óskar Hrafn Þorvaldsson, knattspyrnusérfræðingur íþróttadeildar 365, rýnir í stöðuna á íslenska liðinu eftir leikinn gegn Kósóvó. Óskar segir að ekki sé hægt að kvarta yfir árangri liðsins en blikur séu á lofti með leik liðsins.

Annað tilboð í Gylfa í bígerð?

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er enn á ný orðaður við Everton í enskum fjölmiðlum og það fer ekkert á milli mála að hann er í framtíðarplönum knattspyrnustjórana Ronald Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×