Golf

Patrick Reed hafði sigur á Hawaii

Kári Örn Hinriksson skrifar
Patrick Reed byrjar árið vel.
Patrick Reed byrjar árið vel. AP
Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed sigraði á Hyundai Tournament of Champions sem kláraðist í gærkvöld en hann hafði betur í bráðabana við landa sinn Jimmy Walker. Reed lék lokahringinn á 67 höggum eða sex undir pari en glæsilegur örn á 16. holu gerði honum kleift að jafna við Walker sem hafði leitt nánast allan lokahringinn.

Báðir léku þeir hringina fjóra á Kapalua vellinum á 21 höggi undir pari en á fyrstu holu í bráðabana fékk Reed fugl sem tryggði honum sigurinn. Þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall hefur Reed nú sigrað á fjórum mótum á PGA-mótaröðinni en hann er aðeins fjórði kylfingurinn á síðustu 20 árum sem hefur afrekað það fyrir 25 ára aldur.

Hann kemst því í hóp með Tiger Woods, Sergio Garcia og Rory McIlroy sem það hafa gert en það verður að teljast ansi góður félagaskapur.

Þriðja sætinu deildu þeir Hideki Matsuyama, Jason Day og Russell Henley á 20 höggum undir pari.

Næsta mót á PGA-mótaröðinni er Sony Open en það verður einnig haldið á Hawaii.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×