Handbolti

Patrekur og félagar úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vytautas Ziura og félagar hans eru úr leik.
Vytautas Ziura og félagar hans eru úr leik. vísir/getty
Heimamenn í Katar eru komnir áfram í 8-liða úrslit á HM eftir tveggja marka sigur, 29-27, á lærisveinum Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu.

Heimamenn byrjuðu betur og voru jafnan á undan til að skora í fyrri hálfleik. Þeir náðu þó aldrei meira en tveggja marka forystu og gekk illa að hrista austurríska liðið af sér.

Austurríki átti góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks og leiddi í leikhléi, 13-14.

Lærisveinar Patreks náðu tveggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiks en í stöðunni 14-16 kom góður kafli hjá katarska liðinu sem skoraði fjögur mörk í röð og náði forystunni, 18-16.

Aldrei munaði þó meiru en tveimur mörkum á liðunum og Austurríkismenn náðu nokkrum sinnum að jafna metin um miðbik seinni hálfleiks.

En heimamenn voru sterkari á lokasprettinum en óhætt er að segja þeir hafi fengið góða hjálp frá króatískum dómurum leiksins sem reyndust þeim ansi hliðhollir.

Lokatölur 29-27, Katar í vil en liðið hefur aldrei komist svo langt á HM.

Zarko Markovic var markahæstur í liði Katar með átta mörk en Rafael Capote kom næstur með sjö.

Robert Weber skoraði átta mörk fyrir Austurríki en miklu munaði um að félagi hans í vinstra horninu, Raul Santos, náði sér ekki á strik og skoraði aðeins tvö mörk úr átta skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×