Handbolti

Patrekur: Maður var að gæla við fimmta til sjötta sæti

Einar Sigurvinsson skrifar
Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson vísir/vilhelm
„Maður var að vonast til þess að Framararnir myndu ná jafntefli fyrst að við kláruðum okkar leik. Auðvitað hefði maður vilja taka fyrsta sæti. En ef ég tek tímabilið í heild, 22 leikir og við vinnum 17. Þetta er hrikalega flott tímabil hjá okkur.“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss í lok sigurleiksins á móti Víkingum í kvöld sem tryggði liðinu 2. sæti Olís-deildarinnar.

„Hvað á maður að segja, ótrúlegar framfarir hjá strákunum og að ná þessu í þessari sterku deild er bara magnað og ég bara hrósa strákunum fyrir það.“

Fyrir tímabilið var Selfossi spáð 7. sæti deildarinnar af þjálfurum og forráðamönnum liðanna og segir Patrekur að það að enda í 2. sæti sé frábært.

„Ég tók við góðu liði, ég vissi það alveg. Samt sem áður var liðið tveimur stigum frá falli í fyrra og nú erum við langt frá því. Ég er hrikalega stoltur.“

Selfyssingar voru hársbreidd frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en ÍBV náði að lokum að klára sinn leik og vinna með því deildina. Patrekur segir að það hafi ekki verið markmið fyrir tímabilið að vera í titilbaráttu.

„Ég get ekki sagt það. En maður var að gæla við það að geta lent í fimmta til sjötta sæti, kannski fjórða. Svo þegar fór að líða á og ég sá hvernig okkur gekk þá náttúrlega breytti maður markmiðunum. Það má alveg.“

Selfoss mætir Stjörnunni úrslitakeppninni næst. Patrekur tekur fram að nú hefjist ný keppni og góður árangur í síðust leikjum telja ekki neitt.

„Það er bara nýtt mót og við þurfum að sanna okkur í því móti. Ég þekki það sjálfur. Ég var deildarmeistari með Haukum og lenti svo í öðru sæti í úrslitum á móti ÍBV. Svo vorum við í fyrsta sæti þar á eftir, urðum Íslandsmeistarar og unnum alla leikina í úrslitakeppninni. Maður þekkir alveg söguna en við byrjum á heimavelli sem er mjög gott,“ sagði Patrekur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×