Lífið

Pat Metheny á leið til landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Pat Metheny.
Pat Metheny.
Bandaríski djasstónlistarmaðurinn Pat Metheny er á leiðinni til landsins en hann mun halda tónleika í Hörpu laugardaginn 17. nóvember.

Metheny var ungur farinn að spila með fremstu djasstónlistarmönnum í Kansas City og tvítugur að aldri var hann farinn að láta að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Í tilkynningu segir að hann hafi fljótt getið sér orð fyrir afar persónulegan stíl með ljóðrænum og í senn hrynföstum spuna sem hafi sótt ríkulega í swing, melódíu og blús jasshefðarinnar.

„Með fyrstu plötu sinni, Bright Size Life (1975), má segja að hann hafi endurmótað hlutverk gítarsins innan jassins fyrir nýja kynslóð tónlistarmanna. Allan sinn ferill hefur hann verið ötull frumkvöðull við að tileinka sér nýja tækni og jafnframt haldið áfram að þróa möguleika gítarsins.

Fjölhæfni Methenys á varla sína hliðstæðu, sama hvaða hljóðfæri á í hlut. Um árin hefur hann spilað með jafn ólíkum tónlistarmönnum og Steve Reich, Ornette Coleman, Joni Mitchell, Herbie Hancock og David Bowie. Auk afreka sinna sem afburðaflinkur gítarleikari hefur Metheny einnig sinnt kennslu í ríkum mæli. 18 ára gamall varð yngstur til að kenna við University of Miami og ári síðar endurtók hann leikinn við Berklee College of Music, þar var hann gerður að heiðursdoktor tuttugu árum síðar (1996) svo fátt eitt sé talið,“ segir í tilkynningunni.

Með Metheny í för verða trymbillinn Antonio Sanchez, fjórfaldur Grammy-verðlaunahafi, og á píanó verður Gwilym Simcock. Um bassaleik sér hin ástralska Linda Oh.

Miðasala hefst miðvikudaginn 22. mars á vef Hörpu og á tix.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×