Enski boltinn

Pastore: Di María vill komast til PSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Di María verður líklega leikmaður PSG í næstu viku.
Di María verður líklega leikmaður PSG í næstu viku. vísir/getty
Javier Pastore segir að félagi sinn í argentínska landsliðinu, Ángel di María, vilji fara til Paris Saint-Germain.

Di María, sem varð dýrasti leikmaður í sögu Manchester United þegar félagið keypti hann af Real Madrid síðasta sumar, hefur verið orðaður við frönsku meistarana að undanförnu og það bendir flest til þess að hann gangi til liðs við þá á næstu dögum.

Pastore, sem hefur verið í herbúðum PSG frá 2011, segir að Di María hafi tjáð honum að hann vilji spila fyrir franska liðið.

„Hann vill koma til PSG. Hann er frábær leikmaður og getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi,“ sagði Pastore í samtali við Le Parisien.

„Ég hvatti hann til að koma til okkar. Hann spurði mig um félagið, borgina og lífið í París.“

Di María kom ekki til móts við lið United í Bandaríkjunum á föstudaginn í síðustu viku og svo virðist sem enginn viti hvar hann er niðurkominn.

Líklegt þykir að Argentínumaðurinn gangist undir læknisskoðun hjá PSG í byrjun næstu viku en franska liðið mun borga rúmar 44 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Di María skoraði þrjú mörk og átti 10 stoðsendingar í 27 leikjum með United á síðasta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×