Skoðun

Parísarsamninginn verður að efna

Yfirmenn sendiráða Evrópusambandsins á Íslandi skrifar
Síðastliðinn desember komu fulltrúar 195 landa saman í París til að ná samkomulagi um nýjan alþjóðlegan loftslagssáttmála innan rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Niðurstaðan fólst í hnattrænni aðgerðaáætlun um að forðast skaðlegar loftslagsbreytingar með því að takmarka hnatthlýnun verulega undir 2°C. Nú, tíu mánuðum eftir þessa sögulegu niðurstöðu, er Evrópusambandið hreykið af hinum metnaðarfulla Parísarsamningi, eins og Íslandi er líka óhætt að vera. Hins vegar er ekkert svigrúm til sjálfumgleði eftir hina árangursríku ráðstefnu: til að framtíðarsýnin um minnkun útblásturs á heimsvísu verði að veruleika þurfum við að fylgja orðum okkar eftir með aðgerðum.

Ekki nóg að fullgilda

Yfir 180 lönd hafa nú undirritað Parísarsamninginn. 22 lönd hafa lokið við fullgildingu hans og eru þar með aðilar að samkomulaginu. Við hvetjum Ísland til að fullgilda samninginn eins fljótt og auðið er. Fullgilding er mikilvægt skref í innleiðingu Parísarsamningsins en ein og sér mun hún ekki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, eða leiða sjálfkrafa til aðlögunar og fjármögnunar aðgerða. Það er ekki síður mikilvægt að lönd heims komi sér upp þróttmiklum þjóðarloftslagsáætlunum og alþjóðlegri nálgun á vandann.

Hagvöxtur jókst við minni losun

Að framfylgja samningnum á áþreifan­legan hátt er nokkuð sem ESB og aðildarríki þess taka nú mjög alvarlega. Við stígum fram á við með metnaðarfulla og staðbundna loftslagsstefnumótun, með nýjum tillögum sem hjálpa okkur að ná markmiði okkar um að draga úr útblæstri um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030 og til að halda áfram vegferðinni í átt að lágkolefnahagkerfi. Við heyrum og skiljum áhyggjur af því að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum geti haft neikvæð áhrif á hagvöxt. En – þvert á móti – við höfum komist að raun um að á sama tíma og við drógum úr losun okkar um 23%, frá árinu 1990, jókst verg landsframleiðsla um 46%.

Siðferðileg skylda ríkra ríkja

Þróuðum ríkjum ber sérstök skylda til að sýna forystu, bæði á heimaslóðum og með því að styðja berskjölduðustu löndin til að skipta yfir í lágkolefnahagkerfi sem eru þrautseig út frá mælikvarða lofslagsmála. Framlag Íslands til aukinnar nýtingar jarðvarma í vanþróaðri heimshlutum hefur verið mikilvægt.

Innan örfárra mánaða munu fulltrúar landa heims koma saman í Marrakesh til að útfæra tæknileg atriði pólitíska samkomulagsins frá París. Að efla getu okkar til aðgerða, meta orðið tjón vegna loftslagsbreytinga og leggja fram vegvísi í átt að fjárhagsmarkmiðum á sviði loftslagsmála, eru aðeins nokkur fyrirliggjandi viðfangsefna. Fram að fundinum munu löndin einnig stefna að því að ná marghliða samningum um takmarkanir á útblæstri flugumferðar og um hvernig hverfa skuli í áföngum frá notkun loftslagsskæðra lofttegunda í kælibúnaði.

Sameiginlegt átak okkar allra

En það eru ekki aðeins stjórnvöld sem grípa til aðgerða. Fyrirtæki, borgir og félagasamtök hafa öll lykilhlutverki að gegna við þær aðgerðir sem raunverulega skipta sköpum. Eitt dæmi er Reykjavíkurborg sem í síðastliðnum nóvember tók höndum saman með eitt hundrað íslenskum fyrirtækjum sem lýstu sameiginlega yfir áformum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangs.

Samkomulagið í París lagði grunninn að verndun hnattarins fyrir komandi kynslóðir. Við verðum að halda þeim skriðþunga því verðlaunin eru þess virði: minni losun, aukið orkuöryggi, betri orkunýting og hagvöxtur byggður á nýsköpun. Það er ærið verk að vinna, og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Ísland.



Höfundar eru yfirmenn sendiráða Evrópusambandsins á Íslandi.

Herbert Beck

sendiherra Þýskalands

Paul Begley

staðgengill sendiherra Bretlands

Matthias Brinkmann

sendiherra ESB

Bosse Hedberg

sendiherra Svíþjóðar

Valtteri Hirvonen

sendiherra Finnlands

Lech Mastalerz

yfirmaður sendinefndar Póllands

Mette Kjuel Nielsen

sendiherra Danmerkur

Philippe O’Quin

sendiherra Frakklands

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×