Innlent

Parið gaf sig fram og tveir lausir úr haldi

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglan var með umfangsmiklar aðgerðir í tengslum við frelsissviptinguna á fimmtudag.
Lögreglan var með umfangsmiklar aðgerðir í tengslum við frelsissviptinguna á fimmtudag. vísir/gva
Konan sem lögregla leitaði að eftir frelsissviptinguna í Fellsmúla á fimmtudag gaf sig fram við lögreglu um miðjan dag í gær og maðurinn skömmu síðar. Konunni var síðan sleppt en enn átti eftir að yfirheyra manninn.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í gær að lögregla leitaði að pari sem er búsett í íbúðinni þar sem frelsissviptingin á að hafa átt sér stað.

Konan er fædd árið 1994 en lögreglan leitaði hennar og kærasta hennar sem fæddur er 1990. Parið hefur komið áður við sögu lögreglu en hefur eftir því sem Fréttablaðið kemst næst ekki hlotið refsidóma.

Tveir menn voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar við Fellsmúla á fimmtudag. Mönnunum var sleppt í gær en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að þeirra aðkoma að málinu hefði verið minniháttar.

Heimildir Fréttablaðsins innan lögreglunnar herma að margt sé enn óljóst varðandi málið. Þolandi í málinu þekkti parið og neysla fíkniefna hafði komið við sögu í tengslum við það. Heimildamaður Fréttablaðsins innan lögreglunnar orðaði það svo að málið væri ekki endilega klippt og skorið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×