Enski boltinn

Pardew: Ég veit alveg hvað ég er að gera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Pardew.
Alan Pardew. Vísir/Getty
Alan Pardew stýrði Newcastle-liðin til sigurs í þriðja leiknum í röð í gærkvöldi þegar liðið sló Englandsmeistara Manchester City út úr enska deildabikarnum. Fyrir nokkrum vikum virtist ekkert geta bjargað starfi hins 53 ára gamla Pardew en nú er staðan önnur.

„Þessi sigur var fyrir stuðningsmennina okkar. Það er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut," sagði Alan Pardew við BBC. Newcastle-liðið er nú komið upp í 14. sæti í ensku úrvalsdeildinni og alla leið í átta liða úrslit enska deildabikarsins.

Stuðningsmenn Newcastle heimtuðu á dögunum að Alan Pardew yrði látinn fara og hann mátt þola mjög harða gagnrýni úr öllum áttum. „Ég veit hvað ég er að gera. Ég tel þó að ég hef mátt þola hörðustu gagnrýnina af öllum stjórunum nema kannski fyrir utan stjóra Arsenal og ég hlakka til að mæta þeim næst," sagði Pardew.

Það eru þó sex leikir þangað til að hann mætir Arsene Wenger og sá fyrsti er á móti Liverpool-liðinu um næstu helgi. Newcastle fékk aðeins samtals fjögur stig út úr fyrstu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en hefur náð í sex stig út úr síðustu tveimur, 1-0 heimasigri á Leicester City og 2-1 útisigri á Tottenham Hotspur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×