Íslenski boltinn

Pape hættur hjá Víkingi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pape Mamadou Faye hefur skorað níu mörk í 24 leikjum í Pepsi-deildinni fyrir Víking.
Pape Mamadou Faye hefur skorað níu mörk í 24 leikjum í Pepsi-deildinni fyrir Víking. vísir/stefán
Pape Mamadou Faye, framherji Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta, er hættur hjá félaginu, samkvæmt heimildum Vísis.

Pape tilkynnti leikmönnum þetta á æfingu í gær, en hann hefur verið í herbúðum Fossvogsfélagsins síðan 2012.

Þessi kraftmikli framherji skoraði fimm mörk í 1. deildinni 2013, þar af mörkin tvö sem skutu Víkingi upp í Pepsi-deildina í lokaumferðinni gegn Þrótti, og þá var hann markahæsti leikmaður liðsins í fyrra með átta mörk í 20 leikjum.

Pape hefur komið við sögu í öllum fjórum leikjum Víkings í Pepsi-deildinni á þessari leiktíð og skorað eitt mark. Hann var varamaður í síðasta leik liðsins gegn Stjörnunni.

Þetta er ákveðið áfall fyrir Víkinga þar sem þetta veikir framlínu liðsins, en Víkingar lánuðu framherjann unga, Viktor Jónsson, til Þróttar út leiktíðina og þá er Húsvíkingurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson meiddur.

Samningur Pape við Víking rennur út eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×