Erlent

Páfinn segir þriðju heimsstyrjöldina hafna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frans páfi messaði í Páfagarði í gær.
Frans páfi messaði í Páfagarði í gær. Vísir/AFP
Frans páfi segir ástand heimsmálanna svipa til þess að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin, „þar sem barist er með glæpum, mannsfalli og eyðileggingu“. Páfinn sagði stríð einnig óskynsamleg og þau oft réttlætt með haldlausri hugmyndafræði er hann heimsótti stærsta stríðsminjasafn Ítalíu í borginni Redipuglia í norðurhluta landsins á laugardag.  

„Stríð eru órökrétt; eina markmið þeirra er að valda eyðileggingu. Ágirnd, þröngsýni og valdagræði liggur oft að baki stríðum sem eiga sér stað allt of oft.

„Stríð eru klikkun“ sem „eyðileggja allt, jafnvel bræðrabönd,“ sagði Páfinn er hann minntist sögunnar af því þegar Kain myrti bróðir sinn Abel í Fyrstu Mósebók.

„Og í dag, eftir hörmungar tveggja heimsstyrjalda, má jafnvel líta svo á að sú þriðja sé hafin, þar sem barist er með glæpum, mannfalli og eyðileggingu,“ sagði Páfinn. „Og þessir samsærismenn, þessir sölumenn dauðans, rétt eins og vopnabraskarar hafa þeir áletrað á hjörtu sín: „Hvað kemur mér það við?“

Frans páfi hefur talað reglulega fyrir því á síðustu mánuðum að endi verði bundinn á átökin í Úkraínu, Írak, Sýrlandi, á Gasa-svæðinu og í Afríku.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem páfinn segir ástand heimsins svipa til nýrrar heimsstyrjaldar en slíkt hið sama gerði hann í heimsókn sinni til Suður-Kóreu í ágúst. „Heimurinn er uppfullur af átökum. Maður sagði eitt sinn við mig: „Faðir, við horfum nú á þriðju heimsstyrjöldina sem háð er víðsvegar á afmörkuðum svæðum.“ Hann hafði á réttu að standa,“ sagði páfinn við það tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×