Fótbolti

Pabbi Messi kemur syninum til varnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi gengur ekkert að vinna titla með Argentínu.
Lionel Messi gengur ekkert að vinna titla með Argentínu. vísir/getty
Lionel Messi tapaði þriðja úrslitaleiknum með argentínska landsliðinu á sínum ferli á sunnudaginn þegar liðið lá í valnum gegn Síle eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar.

Þrátt fyrir ótrúlegan árangur með félagsliði sínu, Barcelona, og þá staðreynd að hann hefur fjórum sinnum verið kjörinn besti leikmaður heims viðurkenna hann margir ekki sem besta leikmann sögunnar. Ekki einu sinni í Argentínu.

Sjá einnig: Messi: Ekkert sársaukafullra en að tapa úrslitaleik

Ástæða þess er að hann hefur aldrei unnið stóran titil með Argentínu, en tvær helstu knattspyrnugoðsagnir heims; Diego Maradona og Pelé, unnu báðir HM með Argentínu og Brasillíu. Það hafa þeir fram yfir Messi þó hann sé löngu búinn að taka fram úr þeim í félagsliðafótboltanum.

Enn og aftur efast menn um arfleið Messi í Argentínu þar sem fjölmiðlar kenna honum jafnan um allt sem gerist hjá argentínska landsliðinu.

„Margir þekkja ekkert annað en að klúðra hlutunum og taka út sínar eigin misgjörðir á öðrum,“ segir Jorge Messi, faðir Lionel, í viðtali við Diez Mas.

„Því miður lifum við í heimi þar sem menn eru gagnrýndir harkalega í stað þess að gagnrýna menn á uppbyggilegan hátt. En Leo spilar bara fótbolta og skiptir sér ekki af öðrum,“ segir pabbi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×