Erlent

Óvíst hvort viðræður beri árangur

Bjarki Ármannsson skrifar
Kerry ræddi við yfirvöld í Ísrael í vikunni.
Kerry ræddi við yfirvöld í Ísrael í vikunni. Nordicphotos/AFP
Átjándi dagur árásanna á Gasasvæðið er runninn upp og tilraunir að koma á vopnahléi milli Ísraelsmanna og vopnaðra meðlima Hamas eru í fullum gangi. Í dag hafa í það minnsta fimm Palestínumenn og einn Ísraelsmaður látið lífið.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur í dag rætt við Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu Þjóðanna, og Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands í Kaíró. Þeir ætla að halda blaðamannafund síðar í dag og vonir eru bundnar við það að lögð verði fram einhvers konar tillaga að vopnahléi.

Samkvæmt BBC er talið að Kerry og Ki-moon ætli sér að leggja til vopnahlé í tveimur hlutum. Vopn yrðu lögð niður um stundarsakir í næstu viku, þegar íslamska hátíðin Eid hefst, og þá gætu deiluaðilar komið saman að ræða friðarsamkomuleg til lengri tíma.

Enn fellur fólk í átökunum

Það er hins vegar ekkert víst að slíkar viðræður myndu bera árangur. Hamas-liðar krefjast þess að umsátrinu um Gasa verði aflétt með öllu en trúlega vilja Ísraelsmenn að hersveitir sínar verði áfram á svæðinu á meðan tímabundnu vopnahléi stæði. Talið er að Kerry yfirgefi Kaíró í dag sama hvernig fer.

Fjöldi Palestínumanna sem hefur látist í árásunum undanfarnar tvær vikur er nú kominn upp yfir átta hundruð manns, þar af er meirihluti óbreyttir borgarar. Ísrael hefur misst 36 manns í átökunum, þar af 34 hermenn.

Báðir aðilar halda áfram að varpa sprengjum á hinn. Snemma í morgun tilkynntu Ísraelsmenn að þeir hefðu banað háttsettum meðlimi skæruliðahópsins Íslamskt helgistríð í Gasa. Að minnsta kosti tveir Palestínumenn létust í nótt þegar stór hópur mótmælanda lenti í átökum við herlið Ísraelsmanna.


Tengdar fréttir

Herinn herðir sókn á Gaza

Stjórnvöld í Ísrael hafa greint frá því að herinn muni herða sókn á Gazasvæðinu og hefur átján þúsund manna varalið hefur verið kallað út. Fjöldi hermanna Ísraelshers er því komin í sextíu og fimm þúsund.

Tvöfalt fleiri á vergangi á Gaza

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hyggst miðla málum í deilunni á Gasa en líkur á vopnahléi eru ekki taldar miklar.

Innrás Ísraelshers hafin á Gaza

sraelsmenn hafa hafið innrás á Gaza-ströndina og her þeirra fram af landi, sjó og úr lofti. Eitt helsta markmið innrásarinnar er að eyðileggja jarðgöng sem liðsmenn Hamas hafa notað til að komast inn í Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×