Erlent

Óvíst að samkomulagi verði náð í kjarnorkuviðræðunum í Vínarborg

Freyr Bjarnason skrifar
Hópur íranskra stúdenta sýnir löndum sínum stuðning fyrir framan kjarnorkustofnun Írans í höfuðborginni Teheran. „Burt með refsiaðgerðirnar“ stendur á einu skiltanna.
Hópur íranskra stúdenta sýnir löndum sínum stuðning fyrir framan kjarnorkustofnun Írans í höfuðborginni Teheran. „Burt með refsiaðgerðirnar“ stendur á einu skiltanna. Vísir/AP
Óvíst er að samkomulag náist í dag þegar lokafrestur í viðræðum um kjarnorkumál í Íran rennur út. Fundarhöld hafa staðið yfir í Vínarborg í Austurríki að undanförnu.

Svo gæti farið að Íran og stórveldin sex sem eiga í viðræðunum muni gera með sér samkomulag um nýjan lokafrest.

Mögulegt er að „almennt pólitískt samkomulag“ náist í Vín sem báðir samningsaðilar þurfa síðan að koma sér betur saman um.

Viðræður um samkomulagið þyrftu að fara síðar fram með tilheyrandi undirskriftum, samkvæmt upplýsingum frá meðlim írönsku samninganefndarinnar. Í framhaldinu þyrftu samningaviðræður svo að halda enn frekar áfram um þau mál sem voru ekki í „almenna samkomulaginu“.

Þeir fulltrúar sem hafa tekið þátt í samningaviðræðunum í Vín segja að töluvert beri á milli í viðræðum Bandaríkjanna og Írans um hversu mikið Íranar þurfi að draga úr kjarnorkustarfsemi sinni. Bandaríkjamenn óttast að Íranar hafi í hyggju að smíða kjarnorkuvopn en þeir segjast engan áhuga hafa á því. Þeir séu að nota kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi til að framleiða orku.

Íranar vilja engu að síður semja við Bandaríkin til að binda enda á alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn þeim sem tengjast kjarnorkustarfseminni.

„Markmið okkar hefur verið að loka fyrir þær mörgu leiðir sem Íranar geta farið til að eignast kjarnorkuvopn,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti. „Á sama tíma þurfum við að sjá til þess að dregið verði úr refsiaðgerðunum skref fyrir skref ef Íranar eru að gera það sem þeir eiga að gera. Ég held að Íranar vilji að refsiaðgerðirnar verði stöðvaðar þegar í stað en samt hafa einhverjar leiðir verið opnar á sama tíma og við getum ekki leyft það,“ sagði forsetinn í viðtali í þættinum This Week á sjónvarpsstöðinni ABC.

Stífar viðræður hafa staðið yfir í Vín á milli utanríkisráðherra Írans og fimm þjóða, Bandaríkjanna, Rússlands, Frakklands, Bretlands og Þýskalands. Utanríkisráðherra Kína var svo væntanlegur til borgarinnar í dag. Til að mynda hefur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, margsinnis fundað með Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, í von um að ná samkomulagi.

„Við leggjum hart að okkur. Við vonum að við séum smám saman að ná saman en það eru enn stór mál sem þarf að útkljá,“ sagði Kerry. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×