Viðskipti innlent

Óvissan eykur vanda sjóðsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeim fækkar sem taka lán hjá Íbúðalánasjóði.
Þeim fækkar sem taka lán hjá Íbúðalánasjóði. fréttablaðið/vilhelm
Almenn útlán Íbúðalánasjóðs í október voru 273 milljónir króna, en uppgreiðslur eldri lána hins vegar 2,3 milljarðar króna í sama mánuði. Í október í fyrra námu ný útlán 900 milljónum króna.

Útlán Íbúðalánasjóðs hafa dregist saman um nokkurra mánaða skeið. Sigurður Erlingsson, forstjóri sjóðsins, segir að samdrátturinn í október sé hluti af því. En fleira komi til. „Þessi umræða um framtíðarskipan húsnæðismála hefur klárlega áhrif. Menn hugsa kannski með sér að ef það eigi að fara að breyta íbúðalánum þá vita þeir ekkert hvaða þjónustustig verður í framtíðinni,“ segir Sigurður.

Fólk viti ekkert hvort lánið þeirra verði selt og hvert það verði þá selt. Þá vilji menn hugsanlega fara þangað sem meiri vissa er um framtíðina. „Varan er óbreytt, vaxtakjörin hafa verið óbreytt í nokkuð langan tíma. Vextir annarra hafa verið að hækka á markaðnum og færast nær okkar vöxtum þannig að í raun og veru getum við sagt að við séum samkeppnishæfari,“ segir Sigurður.

Skýringuna sé því líklegast að finna í ytra umhverfi og óvissu með sjóðinn. „Þetta getur verið ein birtingarmynd þess,“ segir Sigurður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×