Viðskipti innlent

Óvissa um samruna Virðingar og Kviku vegna óleystra dómsmála

Hörður Ægisson skrifar
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri Kviku banka.
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri Kviku banka.
Talsverð óvissa er um hvort stjórnir Kviku fjárfestingabanka og Virðingar nái samkomulagi á næstunni um útfærslu og helstu skilmála á boðuðum samruna sem unnið hefur verið að í meira en þrjá mánuði. Stjórn Kviku sendi í byrjun síðustu viku, skömmu eftir niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, bréf til stjórnar Virðingar, þar sem lagðar voru til nýjar forsendur fyrir sameiningu, með ósk um að bréfinu yrði komið áleiðis til hluthafa Virðingar. Af því varð hins vegar ekki. Stjórn Virðingar gat ekki fallist á tillögur Kviku og sendi því nýtt tilboð til stjórnar bankans. Viðræður á milli félaganna eru sagðar á viðkvæmu stigi.

Samkvæmt heimildum Markaðarins eru á meðal þeirra atriða, sem ekki hefur náðst samkomulag um, fyrirvarar sem stjórn Kviku hefur farið fram á í tengslum við kostnað sem gæti fallið á sameinað félag vegna mála sem höfðuð hafa verið gegn Virðingu fyrir dómstólum og hafa ekki verið til lykta leidd. Þar er meðal annars um að ræða stefnu félagsins ET Sjón, sem er í eigu Eiríks Ingva Þorgeirssonar, á hendur Virðingu en fyrirtaka er í málinu 27. mars næstkomandi.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, sagðist í samtali við Markaðinn ekkert geta tjáð sig um stöðu viðræðnanna eða hvenær væri að vænta niðurstöðu um hvort sameiningin nái fram að ganga eða ekki.

Lögmaður Eiríks vildi ekkert tjá sig um málið gegn Virðingu en samkvæmt upplýsingum Markaðarins snýst það um deilur vegna sölu á 69 prósenta hlut í Ölgerðinni í október í fyrra. Á meðal þeirra sem seldu þá hlut sinn í félaginu, en það var fyrirtækjaráðgjöf Virðingar sem hafði umsjón með söluferlinu, var Eignarhaldsfélagið Þorgerður sem átti 45 prósenta hlut. Félag Eiríks átti 28,4 prósenta hlut í Þorgerði, eða tæp 13 prósent í Ölgerðinni, en aðrir hluthafar voru Auður 1 fjárfestingasjóður, sem var í stýringu Virðingar, og Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir. Nokkrum dögum áður en tilkynnt var um söluna í október 2016 fór Eiríkur fram á, eins og áður hefur verið greint frá í Markaðnum, að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu legði lögbann á sölu á hlut Þorgerðar í fyrirtækinu. Því var hafnað og í desember staðfesti Hæstiréttur að salan yrði ekki stöðvuð með lögbanni.

Tveir nýir í stjórn Kviku

Á aðalfundi Kviku sem fer fram í dag, miðvikudag, taka tveir nýir stjórnarmenn sæti í stjórn bankans, samkvæmt heimildum Markaðarins. Þeir eru Guðmundur Örn Þórðarson, fjárfestir og jafnframt hluthafi í tryggingafélaginu VÍS, og Hrönn Sveinsdóttir, fjármálastjóri Vodafone. Þeir stjórnarmenn sem munu láta af störfum eru Anna Skúladóttir, móðir Skúla Mogensen, sem seldi allan hlut sinn í Kviku fyrir skemmstu, og Finnur Reyr Stefánsson, fjárfestir og núverandi varaformaður stjórnar Kviku. Finnur Reyr er á meðal stærstu hluthafa Kviku sem einn af eigendum fjárfestingafélagsins Siglu sem á rúmlega 7 prósent í bankanum.

Breytingar á stjórn bankans koma í kjölfar stórra viðskipta sem hafa verið með bréf í félaginu á undanförnum mánuðum. Þannig eignuðust Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn, fyrrverandi aðaleigendur Skeljungs, og Sigurður Bollason fjárfestir samanlagt 15 prósenta hlut í Kviku í lok nóvember 2016. Þá keypti VÍS einnig í byrjun þessa árs um 22 prósenta hlut í bankanum og fékk félagið heimild FME í síðustu viku til að fara með virkan eignarhlut í Kviku.

Kvika og Virðing undirrituðu viljayfirlýsingu um undirbúning að samruna félaganna í lok nóvember í fyrra. Í aðdraganda sameiningar stóð til að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir og greiða þá fjármuni til hluthafa. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent í sameinuðu félagi en hluthafar Virðingar 30 prósent. Bæði félögin skiluðu góðri afkomu á liðnu ári. Hagnaður Kviku var tæpir tveir milljarðar og arðsemi eiginfjár um 35 prósent. Eigið fé bankans er um 7,4 milljarðar. Virðing skilaði met­afkomu í fyrra og hagnaðist um 460 milljónir.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×