Innlent

Óvissa sem veldur mikilli áhættu

viktoría hermannsdóttir skrifar
Ekki verður hægt að taka við nýjum sjúklingum nema í bráðatilfellum meðan á verkfalli hjúkrunarfræðinga stendur.
Ekki verður hægt að taka við nýjum sjúklingum nema í bráðatilfellum meðan á verkfalli hjúkrunarfræðinga stendur. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ástandið í heilbrigðiskerfinu einkennist nú af gífurlegri óvissu sem veldur mikilli áhættu og ljóst er að það mun taka langan tíma að vinna upp þær afleiðingar sem núverandi verkföll hafa þegar haft fyrir sjúklinga,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær.

Loka þarf 75 prósentum allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmannaeyjum vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga. Það verði þó reynt að tryggja neyðarþjónustu.

Allir þeir sjúklingar sem eru í virkri meðferð á sjúkrahúsinu verða það áfram en ekki verður hægt að taka við nýjum sjúklingum nema í bráðatilfellum.

Starfsemi rannsóknarstofu hefur dregist saman um 70 prósent síðan verkfall lífendafræðinga hófst fyrir átta vikum. Engar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á röntgendeild nema í bráðatilfellum og að fenginni undanþáguheimild.

Um 2.100 hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá ríkinu fóru í ótímabundið verkfall á miðnætti. Mikil röskun verður á starfsemi sjúkrahúsa en veitt var undanþága fyrir 500 stöðugildi til að sinna brýnni neyðarþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×