Innlent

Óvissa ríkir um afnám vasapeningakerfis

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Nýr ráðherra félagsmála vill kanna afrakstur starfshóps sem var skipaður fyrir tæpum tveimur árum.
Nýr ráðherra félagsmála vill kanna afrakstur starfshóps sem var skipaður fyrir tæpum tveimur árum. Vísir/eyþór
Starfshópur um afnám vasapeninga hefur fundað sextán sinnum frá því að hann var skipaður í maí 2016 af þáverandi ráðherra, Eygló Harðardóttur. Hann hefur ekki skilað skýrslu eða öðrum beinum afurðum vinnu sinnar.

Starfshópnum var falið að útfæra og koma á tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Hópurinn er skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í vel­ferðar­þjónustu, Trygginga­stofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands og þremur fulltrúum frá vel­ferðar­ráðu­neytinu.

Í svari frá velferðarráðuneytinu um afrakstur starfshópsins kemur fram að tilraunaverkefni um afnám vasapeningakerfis sé enn á undirbúningsstigi. „Haustið 2016 fundaði starfshópurinn með forstöðumönnum tveggja hjúkrunarheimila sem lýst höfðu áhuga á verkefninu, en vegna þess hve langt er um liðið er nauðsynlegt að kanna aftur hvort áhugi á þátttöku sé enn fyrir hendi. Því má segja að ekki liggi afdráttarlaust fyrir hvaða heimili muni taka þátt í tilraunaverkefninu.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, var ekki tilbúinn til að lýsa sýn sinni á verkefnið þegar spurt var eftir henni í fyrirspurn til ráðuneytisins og því ekki víst um afstöðu hans. „Félags- og jafnréttismálaráðherra er að kynna sér stöðu þessara mála og afla sér þekkingar á verkefninu og mun fjalla um afstöðu sína í svari við fyrirspurn sem beint hefur verið til hans á Alþingi um afnám vasapeningakerfis á dvalar- og hjúkrunarheimilum,“ segir í svari frá ráðuneytinu sem greindi einnig frá því að nýr ráðherra ætlaði sér að svara fyrirspurnum um verkefnið þann 29. janúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×