Innlent

Óvenjumörg útköll vegna vatnsleka í borginni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Varðstjóri hjá slökkviliðinu hvetur fólk til að hreinsa snjó frá niðurföllum og af svölum svo vatn renni ekki inn í hús.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu hvetur fólk til að hreinsa snjó frá niðurföllum og af svölum svo vatn renni ekki inn í hús. V'isir/Valli
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gær vegna vatnsleka víðsvegar um borgina. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir óvenjumörg útköll í jólamánuðinum, og aðstæður víða erfiðar.

Slökkviliðið sinnti níu útköllum í gærkvöldi og þurfti um tíma að senda alla bíla á sama tíma í dæluverkefni. Lekar komu meðal annars upp á Landspítalanum við Hringbraut, Listaháskólanum og iðnaðarhúsnæði í Kópavogi.

Lekarnir voru þó allir minniháttar, en lekinn kom í öllum tilfellum utanfrá.

Þórður Bogason, vaktstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir starfið þó hafa gengið ágætlega. „Þetta varð ekki eins mikið og við bjuggumst við en voru samt nokkur tjón og það er náttúrulega sérstaklega slæmt að fá svona tjón rétt fyrir jólin. Við bjuggumst samt við að þetta yrði aðeins meira. Samt varð töluvert tjón á nokkrum stöðum.“

Þórður segir að óvenjumikið hafi verið um vatnsleka í desember. „Það er í tengslum við þessa hlýju, þegar hlákan kemur. Það er búið að snjóa, koma klaki, snjór ofan á klakann, það verða mörg lög og svo kemur svona skyndileg hláka. Þetta hefur bæði verið af svölum sem hafa fyllst. Ef niðurfallið er stíflað þá fer vatnið ekkert í burtu og kemur upp og fer yfir þröskuldinn.“

Hann hvetur fólk til að hreinsa snjó frá niðurföllum og af svölum svo vatn renni ekki inn í hús.

„Fólk þarf að gæta sín rosalega vel þegar snjóar svona í kringum hurðir og svalir og ofan af þaki. Þetta er erfiðleikaástand þegar veðráttan fer svona með okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×