Körfubolti

Óvenjulegur uppstigningardagur fyrir Einar Árna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn. Vísir/Ernir
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn og 18 ára landsliðs karla, er heima á Íslandi á uppstigningardegi í ár en það hefur ekki gerst oft undanfarin fjórtán ár.

Einar Árni vakti athygli á einni athyglisverði staðreynd á fésbókarsíðu sinni í dag en þetta einungis í annað sinn á fjórtán árum sem Einar Árni er heima á klakanum á uppstigningardegi.

Norðurlandamót yngri landsliða í körfubolta var haldið á þessum tíma á árunum 2003 til 2015 en nú hefur það verið fært inn á sumarið. Norðurlandaþjóðirnar ákváðu að færa mótið frá Svíþjóð til Finnlands, þar sem það verður haldið 26. til 30.júní í sumar.

Einar Árni var þjálfari hjá yngri landsliði öll árin nema eitt meðan mótið fór fram í Solna í Svíþjóð en það var árið 2006.  

Einar Árni fagnar því líka í fyrrnefndum pistli sínum að hann verði með Benedikt Rúnari Guðmundssyni og Inga Þór Steinþórssyni á mótinu í Finnlandi í sumar en þessir þrír hafa þjálfað ófá yngri landslið Íslands undanfarin ár.

Að þessu sinni verður Einar Árni þjálfari 18 ára liðs karla, Benedikt verður með 16 ára lið karla og Ingi Þór þjálfar 18 ára landslið kvenna.

Þórsliðið náði einu sínu besta tímabili frá upphafi í vetur, á fyrsta ári Einars með liðið, og komst meðal annars í bikarúrslitaleik í fyrsta sinn í sögu félagsins. Liðið hefur þegar fengið til sín tvo öfluga unga stráka í vor og Einar Árni ætlar greinilega að byggja ofan á þetta á næsta tímabili.  

Fyrst á dagskrá er hinsvegar að undirbúa 18 ára landsliðið fyrir átök sumarsins en liðið keppir á NM í Finnlandi í lok júní og fer síðan í framhaldinu í Evrópukeppni sem fer fram í Skopje í Makedóníu 29. Júlí til 7. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×