Innlent

Óvenju margir með niðurgang vegna kampýlóbakter

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty/Hari
Óvenju mörg tilfelli hafa greinst hér á landi með niðurgang af völdum kampýlóbakters undanfarna daga. Á síðasta ári greindust um hundrað manns með sýkinguna en á undanförnum árum hafa um 50 til 120 greinst með kambýlóbaktersýkingu árlega.

í tilkynningu á vef Landlæknis segir að þeir einstaklingar sem hafa verið að greinast séu frá mismunandi stöðum landsins og ekki sé að finna hjá þeim sameiginlega uppsprettu bakteríunnar.

Þá segir að tími frá smiti þar til einkenna verður vart, sé yfirleitt tveir til fjórir dagar, en geti verið allt að sjö sólarhringar.

„Einkenni geta verið lítil en oft veldur sýkingin miklum niðurgangi sem getur verið blóðugur, ógleði, uppköstum, krampakenndum kviðverkjum og hita. Veikindin ganga yfirleitt yfir án meðferðar á nokkrum dögum en stöku sinnum þarf að beita sýklalyfjameðferð.“

Þá er fólk beðið um að gæta almenns hreinlætis, sérstaklega við matreiðslu á viðkvæmum matvælum. Einnig þarf að gæta þess að neyta einungis hreins og ómengaðs vatns.

Frekari upplýsingar um kampýlóbaktersýkingar má finna á heimasíðu Embættis landlæknis og Matvælastofnunar.

Sýkingar í kjúklingum á svipuðu róli

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að ekki virðist augljós bein tengsl á milli aukinnar tíðni kampýlóbaktersýkinga í fólki og neyslu kjúklinga sem framleiddir séu hér á landi.

Tíðni kampýlóbakter-mengaðra kjúklinga er svipuð nú og hún hefur verið undanfarin ár, að síðasta ári undanskildu sem var gott.

„Ekki er þó hægt að útiloka tengsl, frekari rannsókna er þörf svo sem að bera saman stofna bakteríunnar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×