Innlent

Óveður á Kjalarnesi: Sendibíll á hliðina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bíllinn á Kjalarnesi.
Bíllinn á Kjalarnesi. Vísir/SFÞ
Sendibíll valt og hafnaði utan vegar í hviðum sem hafa náð allt að 30-40 m/s á Kjalarnesi fyrir hádegi. Afar hvasst hefur verið á Kjalarnesi framan af degi þar sem í raun er óveður. Tvennt var í bílnum en sambland af hvassviðri og hálku varð til þess að bíllinn hafnaði utan vegar. Engan sakaði samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Reiknað er með að það geti verið hvasst fram yfir hádegi á Kjalarnesi. Sömuleiðis er afar hvasst á sunnanverðu Snæfellsnesi sem og suðaustanlands í norðanátt beggja vegna Hornafjarðar. Þar er reiknað með að hvassast verði yfir miðjan daginn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi. Á Vesturlandi er víða hálka eða snjóþekja en ófært á Fróðárheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Flughálka og óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Útnesvegi.

Frá Kjalarnesi í morgun.Vísir/SÓK
Snjóþekja eða þæfingur og skafrenningur er víða á Vestfjörðum en ófært er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en þar er verið að hreinsa. Ófært er einnig á Klettshálsi og mokstri hætt í bili vegna stórhríðar. Þungfært er í Kollafirði á Ströndum og flughálka á vegum í nágrenni Hólmavíkur.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og víða skafrenningur og snjókoma í Skagafirði og Eyjafirði. Þæfingsfærð og stórhríð er á Öxnadalsheiði.

Ófært á Fjarðarheiði og Oddskarði  og beðið með mokstur vegna veðurs. Þæfingsfærð er á Vopnafjarðarheiði en annars er víða snjóþekja á vegum á Austurlandi og skafrenningur á fjallvegum. Hálka er með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×