Viðskipti innlent

Óveðrið hefur áhrif á tryggingafélögin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Vísir/Stefán
Óveðrið í vetur hefur haft áhrif á afkomu tryggingafélaganna. Þannig var heildarhagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar 700 milljónir á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en 72 milljónir nú. Framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 756 milljónir króna nú en jákvæð um 39 milljónir í fyrra.

„Veturinn hefur verið einstaklega tjónaþungur, aðallega vegna tíðra óveðra. Fjárfestingatekjur voru á hinn bóginn vel umfram væntingar og vega að einhverju leyti upp tapið af vátryggingastarfseminni,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar.

Afkoma Vátryggingafélags Íslands var umfram væntingar og segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, að það skýrist aðallega af mjög góðri ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins, en hún nam 3,2 prósentum.

„Afkoma VÍS af vátryggingastarfsemi var ágæt ef litið er fram hjá áhrifum óveðursins þann 14. mars síðastliðinn,“ segir hún jafnframt. Framlegð VÍS af vátryggingarekstri var neikvæð um 165 milljónir króna. Framlegð af vátryggingarekstri á sama tímabili í fyrra var neikvæð um 66 milljónir króna.

Hagnaður VÍS eftir skatta nam 733 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 14 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×