Innlent

Óvæntur glaðningur frá forseta Íslands beið Lilju Katrínar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lilja Katrín var hæstánægð með glaðninginn.
Lilja Katrín var hæstánægð með glaðninginn. mynd/lilja katrín
Lilju Katrínu Gunnarsdóttur, bökunarsnillingi með meiru, beið óvæntur glaðningur þegar hún kom heim úr vinnunni í dag. Glaðningurinn var frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem mætti heim til Lilju á dögunum þegar hún stóð fyrir sólarhrings bökunarmaraþoni til styrktar Krafti.

„Er ég kom heim úr vinnunni beið mín forsetaritari með gjö frá forseta Íslands – árituð og innrömmuð blaðaúrklippa af okkur forsíðufyrirsætunum. Stundum taka dagarnir óvænta stefnu,“ skrifar Lilja Katrín á Facebook.

Myndin sem um ræðir hefur vakið mikla athygli en þar má sjá hvar Lilja brestur í grát er forsetinn birtist í eldhúsinu heima hjá henni. Lilja hafði þá staðið vaktina í eldhúsinu í tæpan sólarhring og báru tilfinningarnar hana, og Guðna sjálfan, ofurliði.

„Hann brosti og þakkaði mér fyrir og þá brutust allt í einu allar þessar uppsöfnuðu tilfinningar út. Ég fór bara að hágráta svo ég segi það hreint út. Ég gróf andlit mitt í höndum mínum og reyndi að hafa hemil á þessu tilfinningaflóði án árangurs. En er ég leit upp aftur á forseta vor sá ég að hann var líka farinn að gráta,“ sagði Lilja að maraþoninu loknu í síðustu viku.

Alls söfnuðust ríflega 500 þúsund krónur í maraþoninu og mun fjárhæðin renna óskert til Krafts – stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein. Enn er hægt að styrkja málefnið í gegnum vefsíðu Lilju Katrínar, blaka.is.

Myndin af Guðna, Lilju Katrínu og Sigurjónu Björgvinsdóttur, móður Lilju, birtist á forsíðu Fréttablaðsins. Vísir/Eyþór

Tengdar fréttir

„Besta og versta hugmynd sem ég hef fengið"

Þrjátíu kíló af hveiti, 10 lítrar af rjóma og 25 kíló af sykri. Þetta er magnið af hráefnum sem ung kona í Kópavogi þurfti til að geta staðið í eldhúsinu og bakað kökur í sólarhring. Gestum og gangandi er velkomið að líta við í kaffi og kökur, gegn því að styrkja gott málefni.

Bökunarmaraþonið tók á eins og 9 mánaða meðganga

24 klukkustunda bökunarmaraþoni ungrar konu í Kópavogi lauk nú á hádegi. Fjölmargir gestir hafa litið við á heimilinu undanfarinn sólarhring, fengið sér köku og styrkt um leið stuðningsfélagið Kraft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×