Erlent

Óvænt úrslit í Michigan opna allt upp á gátt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bernie Sanders hefur styrkt stöðu sína verulega, þótt enn sé Clinton spáð nokkuð öruggum sigri.
Bernie Sanders hefur styrkt stöðu sína verulega, þótt enn sé Clinton spáð nokkuð öruggum sigri. Nordicphotos/AFP
Kosningafræðingar vestra velta nú mjög fyrir sér hvernig á því standi, að Bernie Sanders hafi borið sigur úr býtum í forkosningum Demókrataflokksins í Michigan á þriðjudaginn.

Skoðanakannanir höfðu eindregið bent til þess að Hillary Clinton myndi sigra, en þegar upp var staðið hafði Sanders betur. Úrslitin eru sögð hin óvæntustu í sögu bandarískra skoðanakannana í nokkra áratugi.

Clinton er að vísu enn með mikið forskot á Sanders í forkosningum Demókrataflokksins, en þeim lýkur ekki fyrr en í júní og enn vantar Clinton töluvert upp á að hafa tryggt sér sigurinn.

Sigur Sanders í Michigan, þótt naumur sé, hefur valdið nokkrum óróa í herbúðum Clinton, enda er Michigan eitt af miðvesturríkjum Bandaríkjanna og líkara mörgum þeim ríkjum sem enn á eftir að halda forkosningar í en þeim sem búið er að kjósa í.

Þar eru til sögunnar nefnd bæði Ohio og Illinois, þar sem forkosningar verða haldnar á þriðjudaginn kemur. Clinton hefur verið spáð sigri í þeim báðum, en nú hefur trú manna á þeim spám dvínað nokkuð.

„Ef Michigan var bara tilviljun (sem er mögulegt), þá mun kvöldið í kvöld gleymast hratt,“ skrifar Harry Enten, sérfræðingur á vefnum fivethirtyeight.com, sem sérhæfir sig í skoðanakönnunum og kosningavangaveltum. „En ef þeim sem gera skoðanakannanir hefur sést yfir eitthvað mikilvægara um kjósendur þá gæti orðið mun mjórra á mununum í Ohio og Illinois en búist er við.“

Í herbúðum repúblikana styrkti Donald Trump mjög forskot sitt á hina frambjóðendurna, bæði í Michigan og Mississippi. Hvorki Ted Cruz né Marco Rubio tókst að ná þar umtalsverðum árangri, þótt Cruz hafi sigrað í Idaho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×