Körfubolti

Óvænt úrslit í Maltbikarnum: Valur skellti Haukum og fer í Höllina | Myndir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valsmenn fagna sigrinum vel í kvöld.
Valsmenn fagna sigrinum vel í kvöld. vísir/anton brink
Valur, sem leikur í 1. deild karla, gerði sér lítið fyrir og skellti Domino´s-deildarliði Hauka þegar liðin mættust í lokaleik átta liða úrslita Maltbikars karla í körfubolta í kvöld. Valur vann nokkuð sannfærandi sigur, 81-70.

Haukarnir voru þremur stigum yfir í hálfleik, 39-36, en heimamenn í Val tóku öll völd í seinni hálfleik. Þeir unnu þriðja leikhlutann, 24-16, og voru fimm stigum yfir fyrir síðasta fjórðunginn, 60-55.

Þar tók Haukunum ekki að brúa bilið því Valur jók forskotið um sex stig og innbyrti frábæran sigur, 81-70. Haukar, sem fóru alla leið í úrslitaeinvígi Domino´s-deildarinnar í fyrra, eru í fallsæti og nú úr leik í bikarnum eftir tap gegn liði úr 1. deild.

Austin Magnus Bracey átti stórleik fyrir Val en hann skoraði 33 stig og hitti úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum. Hann tók að auki átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Bandaríkjamaðurinn Urald King skoraði 25 stig og tók 22 fráköst.

Finnur Atli Magnússon var stigahæstur Haukamanna með 18 stig en Sherrod Wright skoraði 17 stig og Hjálmar Stefánsson fimmtán stig. Þetta dugði ekki fyrir Haukanna.

Valsmenn verða eina liðið úr 1. deild í pottinum þegar dregið verður til undanúrslitanna á morgun og vonast væntanlega efstu deildar liðin Þór Þorlákshöfn, KR og Grindavík eftir að mæta Hlíðarendaliðinu í undanúrslitunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×