Skoðun

Óundirbúinn borgarstjóri slær sér á brjósti

Óttarr Guðlaugsson skrifar
Það var afar ánægjulegt að sjá hversu margir af íbúum Grafarholts- og Úlfarsárdals sáu sér fært að mæta til fundar með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra á fimmtudag en hátt í þriðja hundrað manns voru þar samankomnir til að hlusta á borgastjórann ræða um málefni hverfisins.

Á meðal þess sem fram kom í erindi Dags á fundinum var að borgaryfirvöld hyggðust fara út í gríðarlegar byggingaframkvæmdir í hverfinu á næstu árum og raunar lýsti borgarstjórinn því ítrekað sem svo að þetta yrðu stærstu byggingaframkvæmdir í sögu Reykjavíkurborgar. Sjálfur leyfi ég mér að efast um réttmæti slíkra fullyrðinga enda þyrftu fyrrnefndar framkvæmdir þá að vera stærri en t.d. Hellisheiðavirkjun sem kostaði í kringum 100 milljarða króna, Harpa sem kostaði litla 33-37 milljarða króna (en borgin bar 46% af þeim kostnaði) og svo auðvitað höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur sem kostuðu borgarbúa á milli 9-10 milljarða á núvirði að mig minnir. Þessar fullyrðingar borgarstjórans virkuðu því þannig á mig að borgarstjórinn væri að berja sér um brjóst með innantómum slagorðum frekar en að hann hygðist raunverulega lyfta einhverju grettistaki í málefnum hverfisins.

Borgarstjórinn minntist oftar en einu sinni á kostaðinn við byggingarnar en aldrei nefni hann þó, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar fundarmanna, hvað ætti að koma á móti upp í þann kostnað, eins og t.d. sala á byggingalóðum, landsvæði FRAM í Safamýri eða mögulega sá sparnaður sem borgin hefur hlotið af því að standa ekki við gerða samninga við FRAM og íbúa Grafarholts og Úlfarsárdals á síðustu árum. Tölur yfir þennan sparnað hljóta að vera til í ráðhúsi borgarinnar en eitthvað segir mér þó að borgarmeirihlutinn sé tregur til að ræða þær.

Þá kom það mér mjög á óvart hversu illa undirbúinn borgarstjórinn var fyrir íbúafundinn. Hann virtist vera afar illa að sér í málefnum hverfisins, sem verður að teljast skrýtið í ljósi alls þess sem á undan er gengið, og sagðist m.a. ekki kannast við fyrirhugaða íbúabyggð við Reynisvatn – Íbúabyggð sem sett var inn í nýsamþykkt aðalskipulag borgarinnar þrátt fyrir ítrekuð og hávær mótmæli íbúa hverfisins sem vildu losna við reit Þ103 úr fyrrnefndu skipulagi (sjá hér). Þá átti hann erfitt með að svara spurningum íbúa um skort á grunnþjónustu, t.d. voru tún slegin aðeins einu sinni í fyrra og enn bólar ekkert á leikvelli við Reynisvatnsás sem byggja átti fyrir ári síðan.

Loks var ekki annað að sjá en að íbúar hverfisins hafi verið slegnir þegar þeir heyrðu borgarstjórann reyna að sannfæra þá um mikilvægi þess að uppbygging útisundlaugar við Sundhöll Reykjavíkur yrði kláruð á undan uppbyggingu sundlaugar í Grafarholti- og Úlfarsárdal, hverfi þar sem enga sundlaug er að finna og grunnskólabörnum hefur árum saman verið ekið í rútu Árbæ, Grafarvog og nú til Mosfellsbæjar til að stunda skólasund. Af einhverjum ástæðum virtust íbúar hverfisins ekki spenntir fyrir því að þetta ófremdarástand héldi áfram til ársins 2022 og raunar virtist sú óánægja koma flatt upp á borgarstjórann sem eflaust hefur talið sjálfsagt að íbúar hverfisins sýndu því skilning að gæluverkefni í miðbæ borgarinnar njóti forgangs yfir lögbundna grunnþjónustu í úthverfunum.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×