Erlent

Ótti við innrás Rússa magnast

Úkraínskir uppreisnarmenn, sem vilja sameinast Rússlandi, hafa nú hertekið fleiri opinberar byggingar og lögreglustöðvar í austurhéruðum landsins. Aðskilnaðarsinnum fjölgar og ótti við innrás Rússa í Úkraínu magnast. 

Vopnaðir aðskilnaðarsinnar hafa hertekið opinberar byggingar í austurhluta Úkraínu síðustu daga. Í yfirlýsingu í gær gaf Olexander Turchynov, settur forseti landsins, uppreisnarmönnunum frest til klukkan níu í morgun til að yfirgefa byggingarnar áður en gripið yrði til víðtækra hernaðaraðgerða. Það gerðu þeir ekki og réðust þess í stað inn í höfuðstöðvar lögreglu í bænum Horlivka í austurhluta Úkraínu og lögðu þær undir sig. 

Stjórnvöld í Kænugarði skilgreina innrásirnar sem hryðjuverk, en engar fréttir hafa þó borist af því að herinn hafi látið til skarar skríða. Aðskilnaðarsinnar hafa nú sent Vladimir Pútín rússlandsforseta formlega beiðni um aðstoð. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur varað stjórnvöld í Kænugarði við að beita herafli gegn rússneskumælandi íbúum Úkraíu. 40.000 rússneskir hermenn eru nú við landamærin, auk 25 þúsund manna herliðs sem sent var inn á Krímskaga í byrjun mánaðar. 

Í dag lýsti Turchynov forseti því svo yfir að til greina kæmi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Úkraínu verður breytt í sambandsríki, samhliða forsetakosningunum 25 maí næstkomandi. Þetta yrði gert til að svara kröfum íbúa í austurhéruðunum sem vilja sameinast Rússlandi. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt í gærkvöldi neyðarfund  vegna ástandsins í Úkraínu. Þar voru Rússar sakaðir um að hafa hvatt til aðgerða uppreisnarsinna með því að flytja aukið herlið að landamærum Úkraínu en það neita rússnesk yfirvöld alfarið fyrir.

Fyrirhugað er að fundur verði haldinn í vikunni með fulltrúum Rússlands, Úkraínu, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og Úkraínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×