Innlent

Ótti kvenna við nauðganir: Hræðast að fara einar út að hlaupa í myrkri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
"Það er búið að kenna okkur frá barnsaldri að vera ekki einar úti, passa drykkina okkar, treysta ekki ókunnugum og allt þetta.“
"Það er búið að kenna okkur frá barnsaldri að vera ekki einar úti, passa drykkina okkar, treysta ekki ókunnugum og allt þetta.“ Vísir/Andri Marinó
Finnborg Salome ÞóreyjarSteinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði, heldur á morgun erindi á Þjóðarspeglinum, árlegri ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Erindi Finnborgar fjallar um ótta kvenna við það að vera nauðgað og er hluti af meistararitgerð hennar í kynjafræði sem fjallaði um nauðgunarmenningu í stærra samhengi. Erindið byggir á eiginlegri rannsókn á nauðgunarmenningu. Tekin voru rýniviðtöl við stúdenta úr fjórum háskólum á höfuðborgarsvæðinu og viðtöl við brotaþola nauðgunar og sérfræðing sem starfar náið með brotaþolum. Viðmælendur voru alls 23 talsins.

„Í nauðgunarmenningu er þessi ótti kvenna við að vera nauðgað álitið norm. Það eru til dæmis ýmsar félagslegar reglur sem kenna okkur að forðast nauðganir sem ýta undir þennan ótta. Það er búið að kenna okkur frá barnsaldri að vera ekki einar úti, passa drykkina okkar, treysta ekki ókunnugum og allt þetta. Það er virkilega áhugavert hvað þetta stjórnaði lífi þátttakenda í rannsókninni,“ segir Finnborg í samtali við Vísi.

Hún tengir nauðgunarmenningu jafnframt við nauðgunarmýtur og hugmyndir okkar um hvað sé „raunveruleg nauðgun“.

„Nauðgunarmýtur eru þessar hugmyndir sem við heyrum um í samfélaginu í tengslum við nauðganir.  Sem dæmi má taka að okkur sé nauðgað í húsasundum, það að körlum sé ekki nauðgað og að það sé ekki hægt að nauðga í hjónabandi. Mýtur eru í rauninni staðalmyndir af nauðgunum en það að þetta séu mýtur útilokar auðvitað ekki að fólk lendi í slíku ofbeldi. Mýturnar verða til dæmis til af því að umræða um slík afbrot er hávær í fjölmiðlum.“

Mynd/Andri Marinó
Fæstir strákar kannast við þessa tilfinningu en þekkja þó bjargráð kvenna

Dæmi um hvernig mýturnar stjórna lífi þátttakenda í rannsókn Finnborgar er meðal annars ótti við að fara ein út að hlaupa á morgnana þegar það er myrkur.

„Þær óttast líka að labba einar um á stórum, grónum svæðum, þær ganga um með lykla að nóttu til og sumar ganga jafnvel um með hnífa. Þetta hefur því áhrif á líf þeirra en ég myndi ekki segja að þær séu mjög uppteknar af því. Það er einmitt það sem er svo áhugavert. Það er orðið svo eðlilegt að grípa til svona ráðstafana án þess að maður geri sér sérstaklega grein fyrir því.“

Finnborg segist hafa byrjað að pæla í þessum ótta þegar hún þurfti að labba ein í iðnaðarhverfi á morgnana til að fara í sjúkraþjálfun.

„Ég man að mér fannst þetta svo óþægilegt svo ég spurði kærastann minn út í þetta og hann var bara „Hvað ertu að tala um?“ Þá hafði hann aldrei pælt í þessu. Ég fór því að spyrja stráka og stelpur út í þetta og strákar kannast ekki við þessa tilfinningu, nema kannski þeir sem hafa lent í svona aðstæðum.“

Hún segir þó að strákarnir hafi allir þekkt þessi bjargráð kvenna, til dæmis lykilinn í höndinni.

„Svo má líka spyrja hvort að þessi vopn muni koma að gagni og hversu líklegt er að konur lendi í ofbeldi á þessum stöðum eða í þessum aðstæðum. Rannsóknir sýna að ofbeldi á sér frekar stað annars staðar, inni á heimili til dæmis þar sem að gerandinn þekkir viðkomandi. Maður gengur ekki um með lykil í höndinni heima hjá sér eða í partýi með vinum sínum.“

Erindi Finnborgar verður á málstofunni Ofbeldi í samfélaginu en rúmlega 200 erindi verða flutt á Þjóðarspeglinum á morgun í 56 málstofum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×