Erlent

Ótti, ofbeldi og kynþáttahatur áberandi eftir að Trump er kjörinn forseti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
"Þið svörtu einstaklingar ættuð að fara að huga að þrælanúmerunum ykkar," er meðal þeirra ummæla sem hafa verið látin falla síðan á þriðjudag.
"Þið svörtu einstaklingar ættuð að fara að huga að þrælanúmerunum ykkar," er meðal þeirra ummæla sem hafa verið látin falla síðan á þriðjudag. Twitter/Skjáskot
Töluverður ótti virðist hafa gripið um sig í Bandaríkjunum eftir að ljóst varð að Donald Trump yrði 45. forseti landsins. Frásögnum minnihlutahópa af misrétti hefur verið safnað saman í Twitter safnið „Day 1 in Trump‘s America,“ eða Dagur 1 í Bandaríkjum Trump. Svipaðar aðstæður komu upp eftir Brexit kosningarnar í Bretlandi, þar sem tilkynningar um hatursglæpi ruku upp í vikunni eftir kosningarnar.

Trump var mjög stórorður í kosningabaráttu sinni og lofaði hann ýmsu sem kom illa við minnihlutahópa. Múrinn á landamærum Mexíkó er líklega frægasta kosningaloforð Trump en hann var einnig með yfirlýsingar um að loka landinu alfarið fyrir múslímum og elta uppi til að vísa úr landi allt að 11 milljónir ólöglegra innflytjenda.

Sjá einnig:Óttast aukna fordóma í kjölfar sigurs Trump

Trump hét því einnig að snúa við dómi hæstaréttar um jafnan rétt til samkynja hjónabands og afnema sérstakar aðgerðir til að vernda hinsegin fólk við mismunun. Allt þetta þýðir að minnihlutahópar í Bandaríkjum hafa raunverulegt tilefni til að óttast um sinn hag, þar til annað kemur í ljós.

Dagur 1 eftir Trump

Insanul Ahmed, einn ritstjóra vefsíðunnar genius.com, hefur safnað saman tístum þar sem fólk segir frá ofbeldi, hatursummælum eða hótunum sem það hefur orðið fyrir á þessum eina degi síðan ljóst varð að Trump yrði forseti.

Meðal þess sem birtist í safninu eru frásagnir múslimakvenna sem þora ekki að klæðast slæðu. Þá hefur fólk af Suður-Amerískum uppruna einnig fundið fyrir áhrifum úrslitanna og segja nokkrir að fólk hafi hrópað að þeim að „fara aftur til síns heima.“ Þá birtir einn notandi mynd af veggjakroti þar sem svörtu fólki er ráðlagt að velja sér þrælanúmer og eitt myndbandið sýnir hóp svartra ganga í skrokk á stuðningsmanni Trump.

Þá virðast ýmsir hafa dregið suðurríkjafánann fram, en hann er í hugum margra Bandaríkjamanna tákn kynþáttahaturs og minnisvarði tíma þegar þrælahald var enn löglegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×