Innlent

Óttast vanbúið millidómstig

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ágúst 2013 um upptöku millidómstigs skilaði ráðherra tillögum sínum í gær. Verði tillögur nefndarinnar að lögum verður dómum og úrskurðum héraðsdóms skotið til Landsréttar í stað Hæstaréttar. Við Landsrétt munu starfa 15 dómarar og dómurum við Hæstarétt verður fækkað niður í sex og munu fimm dómarar taka þátt í meðferð máls fyrir dómi.

Þá munu allir dómarar við Hæstarétt gera grein fyrir atkvæði sínu ólíkt því sem nú er, með því að rita sín eigin dómsatkvæði eða skrifa undir atkvæði annarra. Þá gerir nefndin einnig tillögu um breytingu á skipan dómara við Hæstarétt.

Skúli Magnússon, formaður dómarafélags Íslands, gerir ýmsar athugasemdir við tillögur nefndarinnar. Til dæmis sé gert ráð fyrir að Hæstiréttur geti tekið við málum beint frá héraðsdómi án þess að málin komi til meðferðar hjá Landsrétti.

„Þarna gæti framkvæmdin verið með ýmsum hætti en það er hægt að sjá fyrir sér að hún gæti farið hreinlega út í vitleysu ef Hæstiréttur nýtir þessa heimild mjög mikið og mjög frjálslega,“ segir Skúli.

Þá bendir hann á að hér sé verið að koma á nýjum dómstól sem kosti mikla fjármuni, bæði í stofnkostnað og rekstrarkostnað til framtíðar. Ekki séu til nægir peningar til að reka það litla dómskerfi sem fyrir er.

„Og ef þeir peningar eru ekki fyrir hendi, þá sé ég ekki hvernig menn ætla að fjármagna fullvaxið millidómstig. Ég óttast að ef menn fara í þann leiðangur þá að þá verði það ekki gert af nægilegum efnum og þetta nýja millidómstig verði þá vanbúið hvað varðar fjármuni og mannafla. Þá er betur heima setið en af stað farið,“ segir Skúli.

Viðtalið við Skúla í heild má sjá hér að neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×