Innlent

Óttast um lífríki Þingvallavatns

Þingvallavatn. Lífríki vatnsins þykir ekki eiga hliðstæðu í veröldinni. Fjöldi líffræðinga skrifuðu Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, bréf þar sem beðið var um að fallið yrði frá veglagningu við vatnið. Gísli Már Gíslason prófessor segist þá ekki hafa fengið nein svör.
Þingvallavatn. Lífríki vatnsins þykir ekki eiga hliðstæðu í veröldinni. Fjöldi líffræðinga skrifuðu Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, bréf þar sem beðið var um að fallið yrði frá veglagningu við vatnið. Gísli Már Gíslason prófessor segist þá ekki hafa fengið nein svör. Vilhelm

"Markmið Vegagerðarinnar er að gera veg með 90 kílómetra hámarkshraða. Það gefur augaleið að umferð um vatnið mun aukast eftir að Gjábakkavegur hefur verið lagður, þar sem hann er styttri leiðina til höfuðborgarsvæðisins og mun hafa í för með sér þungaflutninga," segir Gísli Már Gíslason, vatnalíffræðingur við Háskóla Íslands. Hann óttast um lífríki Þingvallavatns vegna mengunar sem hann telur að verði vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vatnið.

Björn Bjarnason, formaður Þingvallanefndar, segir nefndina ekki hafa fjallað um málefni Gjábakkavegar í tengslum við mótmæli Péturs M. Jónassonar, helsta sérfræðing heims um Þingvallavatn, en undir erindi Péturs hefur fjöldi fræðimanna tekið.

Jón Helgason, framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar, segist hafa vitað af því að fjöldi líffræðinga sendi umhverfisráðherra mótmæli vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Hann segir að öllum hagsmunaaðilum hafi verið svarað vegna málsins en ekki sé hægt að svara öllum þeim sem hafa álit á málinu.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur Pétur kært úrskurð skipulagsnefndar um Gjábakkaveg til Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og er málið þar til athugunar. Hann telur að málið kunni að verða þess valdandi að Þingvellir falli út af heimsminjaskrá og niturmengun vegna aukinnar umferðar eigi eftir að skapa mikla hættu fyrir lífríki vatnsins.

Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, starfsmaður heimsminjanefndar, hefur lýst því yfir að hugsanlega geti málið orðið til þess að Íslendingar glati trúverðugleika sínum gagnvart UNESCO og komið í veg fyrir að Surtsey verði tekin inn á listann.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segir lögfræðinga ráðuneytisins athuga hvort endurupptaka á úrskurði Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, sé mögulegur en Jónína Bjartmarz staðfesti úrskurð skipulagsnefndar 10. maí, eða tveimur dögum fyrir síðustu kosningar. Hún setti það sem skilyrði að áhrif niturs á vatnið yrðu könnuð. Pétur telur að það verði of seint að kanna áhrif mengunar af völdum vegarins eftir að hann hefur verið lagður.

Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður, sem sæti á í Þingvallanefnd, segir málið verða tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar. Hún muni beita sér gegn öllu því sem kunni að spilla náttúru Þingvalla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×