Erlent

Óttast stjórn Rússa yfir Svarta hafinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hershöfðinginn Philip Breedlove
Hershöfðinginn Philip Breedlove Vísir/AFP
Æðsti yfirmaður herafla NATO segir að aukin viðvera herafla Rússlands á Krímskaga gæti leitt til þess að Rússar muni stjórna Svarta hafinu að fullu. Hershöfðinginn Philip Breedlove hélt þessu fram í Kænugarði í dag, þar sem hann fundaði með leiðtogum Úkraínu.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnti í dag að 14 orrustuþotur hafi verið sendar til Krímskaga og að seinna meir verði ávallt 30 slíkar þotur þar. Þetta kemur fram á vef BBC.

Breedlove sagði í gær að fjöldi rússneskra hermanna væri nú í austurhluta Úkraínu, þar sem þeir væru að þjálfa og aðstoða aðskilnaðarsinna. Yfirvöld í Moskvu hafa ávallt þvertekið fyrir að hafa tekið beinan þátt í átökunum í Úkraínu, en rúmlega fjögur þúsund og þrjú hundruð einstaklingar hafa fallið síðan í apríl.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sakaði Rússa í dag um að brjóta gegn alþjóðalögum með aðgerðum sínum í Úkraínu og á Krímskaga. Hún sagði að varanlegt vopnahlé í landinu væri hæpið og að frekari viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi væri óhjákvæmilegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×