Lífið

Óttast ekki að verða uppiskroppa með umfjöllunarefni

Guðný Hrönn skrifar
Auður Gná og Rut Sigurðardóttir eru meðal þeirra sem sjá um Islanders í dag.
Auður Gná og Rut Sigurðardóttir eru meðal þeirra sem sjá um Islanders í dag. Vísir/Anton Brink
Vefurinn Islanders, sem innanhússarkitektinn Auður Gná og ljósmyndarinn Íris Ann settu á laggirnar, er að verða ársgamall. Á þeim vef er lesendum veitt innsýn í einstök og vel valin íslensk heimili.

Hugmyndin að síðunni var búin að vera lengi í gerjun, í mörg ár,“ segir Auður Gná Ingvarsdóttir spurð út í hvernig síðan Islanders varð til. „Ég sem innanhússarkitekt hef mikinn áhuga á að skoða og velta fyrir mér hvað það er sem gerir heimili að heimili. Í mínu nærumhverfi er mikið af fólki í skapandi greinum sem eru yfirleitt einstaklingar sem fylgja ekki ríkjandi stefnum og straumum, þeir líta á heimili sín sem meiri framlengingu af sjálfum sér og lífsstíl sínum,“ segir Auður sem kveðst líta á síðuna sem hálfgerða mannfræði- og sálfræðistúdíu. „Í framtíðinni eru síðan hugmyndir um að víkka örlítið út hugmyndina og fara að taka inn ólíkari umfjallanir um það skemmtilega fólk sem býr hér á landi og Íslendinga sem eru að gera áhugaverða hluti erlendis líka.“

Auður segir ekki hafa verið hlaupið að því að finna einhvern til að búa til Islanders með sér. „Við Íris Ann ljósmyndari byrjuðum verkefnið en hún var áður búin að vinna með mér í því að taka myndir fyrir Further North vörulínuna mína. Hún var sú eina sem var tilbúin að stökkva af stað en hafði orðað þessa hugmynd við nokkra áður og fengið lítil viðbrögð. Ég hef heyrt að það sé týpískt fyrir konur að rjúka af stað án þess að vera með skýra viðskiptahugmynd og það er einmitt það sem við gerðum. Okkur fannst og finnst þetta mjög spennandi og núna sér maður betur að möguleikarnir eru miklir þegar búið er að búa til svona platform. Þetta er búin að vera sleitulaus vinna í heilt ár og mjög krefjandi á köflum, en við erum að uppskera í almennri ánægju sem við finnum fyrir svo víða,“ útskýrir Auður.

En frá því að Islanders var stofnuð hafa orðið breytingar og nýtt fólk hefur komið að síðunni. „Íris Ann er líka eigandi og rekstraraðili að Coocoo’s Nest og var þar að auki að opna Minor, listamannakollektíf úti á Granda, þannig að hún ákvað að hún þyrfti að einbeita sér alfarið að þeim hlutum. En hún verður samt á hliðarlínunni og kemur inn sem ljósmyndari við og við. Rut Sigurðardóttir ljósmyndari tók við keflinu af Írisi og kemur til með að þróa þetta áfram með mér og svo erum við með frábæra textamanneskju, Önnu Sóleyju, sem er líka að byrja að vinna í verkefninu. Það má ekki gleyma Ben Moody sem er karlmaðurinn á bak við okkur konurnar og passar að allur texti sem fer inn á vefinn sé vel yfirfarinn og leiðréttur. Þetta er teymið og svo eru samstarfsaðilar farnir að vinna efni fyrir síðuna.“

Bókaútgáfa a döfinni

Á Islanders má finna umfjöllun og ljósmyndir af dásamlega fallegum og vel völdum íslenskum heimilum. „Ég hef litlar áhyggjur af því að verða uppiskroppa með efni,“ segir Auður spurð út í hvort hún óttist ekki að eiga einn daginn í erfiðleikum með að finna heimili til að fjalla um. „Það leynist svo margt áhugavert hér á landi, við erum líka byrjaðar að mynda heima hjá Íslendingum sem búa erlendis sem er mjög spennandi og á vonandi eftir að verða meira þegar okkur fer að vaxa fiskur um hrygg. Hugmyndin er svo að koma efninu okkar í bók. “



Á þessu ári sem Islanders hefur verið starfrækt hefur Auður notið þess að sjá hugmynd sína vaxa og dafna. „Það besta við að halda úti þessu verkefni er fjölbreytnin sem fylgir þessu og að geta notað þennan miðil til að fjalla um það sem manni finnst áhugavert og að fá að hitta og kynnast svona mörgum áhugaverðum aðilum. Það að geta bankað upp á og farið í heimsókn inn á öll þessi ólíku heimili er auðvitað ótrúlega skemmtilegt.“

Með sýningu á HönnunarMars

Spurð út í framhaldið segir Auður: „Á döfinni er að halda áfram að byggja síðuna upp. Megináherslan verður á innlitin en svo koma innslög af öðrum toga með. Svo er hugmyndin að byggja upp netverslun í kringum verkefnið og nú þegar eru plön með að fara jafnvel í samstarf með hönnuði við að framleiða vöru sem verður seld í netversluninni undir vörumerki Islanders. Svo ætlum við að halda áfram að vera með „online“ myndlistarsýningar,“ segir Auður sem minnir áhugasama á að kíkja á sýningu Islanders á HönnunarMars þar sem 12 íslenskir myndlistarmenn vinna við að umbreyta sama húsgagninu í myndlistarverk sem sýnd verða í Ásmundarsal. Um leið verður haldið upp á eins árs afmæli Islanders.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×