Innlent

Óttast aukinn kostnað við nám

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikilvægt er að aldurinn komi ekki í veg fyrir að fólk komist í framhaldsskóla. Þetta segir þrjátíu og þriggja ára framhaldsskólanemi sem efast um að hafa efni á námi verði aðgengi þeirra sem eldri eru að skólunum takmarkað.

Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hefur síðustu ár verið boðið upp á nám sem kallast leikskólabrú. Námið er á framhaldsskólastigi og er fyrir þá sem vilja verða leikskólaliðar eða stuðningsfulltrúar. Í dag eru hátt í sextíu nemendur í náminu. Flestir eru konur sem eru eldri en 25 ára. Skólameistari Fjölbrautarskólans í Garðabæ telur að leggja þurfi námið niður, verði áform ríkisstjórnarinnar um að takmarka aðgengi nemenda 25 ára og eldri að framhaldsskólum, að veruleika.

Marta Jónsdóttir er ein þeirra sem stundar nám á leikskólabraut skólans. Hún fór ekki í framhaldsskóla á sínum tíma þar sem hún eignaðist ung að árum börn. Eftir að hafa unnið sem leiðbeinandi á leikskóla í 14 ár langaði hana að mennta sig á því sviði. Hún komst ekki inn í Kennaraháskólann þar sem hún hefur ekki stúdentspróf og fór þess vegna í Fjölbrautarskólann í Garðabæ. Hún segir menntunina skipta sig miklu máli því hún sé stökkpallur fyrir hana til að komast inn í háskólanám.

Menntamálaráðherra hefur sagt að ýmis önnur úrræði séu í boði fyrir þá sem eru eldri en 25 ára eins og símenntunarstöðvar. Marta segir að í dag greiði hún tæplega 40 þúsund krónur fyrir önnina en hún þyrfti að greiða mun meira fyrir aðrar leiðir. Hún hafi ekki efni á því. Hún telur mikilvægt að aldurinn komi ekki í veg fyrir að hún og aðrir í hennar sporum mennti sig þar sem það sé of kostnaðarsamt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×