Erlent

Óttast aukið flæði vígamanna til Evrópu með falli Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd úr tímaritinu Dabiq, sem gefið er út af Íslamska ríkinu.
Mynd úr tímaritinu Dabiq, sem gefið er út af Íslamska ríkinu.
Embættismenn í Evrópu óttast aukið flæði vígamanna frá Írak og Sýrlandi til Evrópu, verði Mosul frelsuð úr haldi Íslamska ríkisins. Þúsundir Evrópubúa hafa gengið til liðs við ISIS en eftir ítrekaða ósigra samtakanna hafa þeir hafið að snúa aftur heim.

Búast má við því að missir Mosul muni enn frekar auka flæði vígamanna og hefur yfirvöldum Evrópuríkja verið ráðlagt að undirbúa sig fyrir það.

„Endurheimta meginvígis ISIS í norðurhluta Írak, Mosul, getur leitt til þess að ofbeldisfullir vígamenn snúa aftur til Evrópu," hefur AFP fréttaveitan eftir Julian King, öryggisráðherra Evrópusambandsins.

Hann segir ólíklegt að þúsundir vígamanna muni flýja aftur til Evrópu, en einungis nokkrir gætu skapað mikla ógn í heimsálfunni.

Talið er að um 2.500 evrópskir vígamenn séu enn á átakasvæðum.

Þar að auki er hætt við því að haldi ISIS áfram að missa stóra hluta af yfirráðasvæði sínu muni þeir senda fleiri vígamenn til að fremja hryðjuverk í Evrópu.

Þá er líklegt að hryðjuverkaárásum í Norður-Afríku muni fara fjölgandi þar sem Íslamska ríkið þyrfti að breyta tilveru sinni frá því að vera með yfirráðasvæði í að líkjast al-Qaeda meira.

Meðal erlendra vígamanna ISIS eru flestir frá Túnis. 


Tengdar fréttir

Íbúar Mosul óttast ofbeldi

Írakski herinn segir minnst tuttugu þorp umhverfis borgina hafa verið frelsuð úr haldi ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×