Viðskipti innlent

Óttast að stöðug styrking krónunnar valdi öðru hruni

Heimir Már Pétursson skrifar
"Það hafa auðvitað orðið gríðarlegar hækkanir hér innanlands og ferðamaðurinn finnur vel fyrir því.“
"Það hafa auðvitað orðið gríðarlegar hækkanir hér innanlands og ferðamaðurinn finnur vel fyrir því.“ Vísir/Daníel
Hækkun á gengi krónunnar undanfarin misseri er farin að skaða ferðaþjónustuna og útflutning á íslenskum afurðum. Friðrik Pálsson ferðafrömuður vill frysta gengi krónunnar til að koma í veg fyrir frekari styrkingu hennar með áhrifum sem hann óttast að valdið geti öðru efnahagshruni.

Krónan hefur styrkst mikið á undanförnum misserum eða um 17 prósent gagnvart einstökum gjaldmiðlum og um 30 prósent gagnvart breska pundinu sem einnig hefur fallið vegna ákvörðunar bresku þjóðarinnar að ganga úr Evrópusambandinu. Styrking krónunnar þýður að ferðaþjónustan og útflytjendur á íslenskum vörum fá minna fyrir sínar vörur og þjónustu og ferðamenn fá minna fyrir sína peninga hér á landi.

Friðrik Pálsson ferðafrömuður og hótelstjóri á Rangá segir engin viðskipti með krónur í öðrum löndum og því sé í raun um heimatilbúinn vanda að ræða.

„Það hafa auðvitað orðið gríðarlegar hækkanir hér innanlands og ferðamaðurinn finnur vel fyrir því. Ég vil aðallega leggja áherslu á að þessi gengisstyrking sé byggð á afskaplega veikum grunni. Það er enginn markaður fyrir íslenska krónu þannig að þetta er bara ákvörðun Seðlabankans á hverjum degi; hvaða gengi hann vill hafa á krónunni,“ segir Friðrik.

Byggt sé undir þessa þróun með mjög varhugaverðu vaxtastigi.

„Og smátt og smátt erum við að stefna í afskaplega svipaða átt og við vorum að gera fyrir hrun. Að byggja undir krónuna langt umfram það verðgildi sem er á bak við hana og það er mjög hættulegt,“ segir Friðrik. Íslendingar séu sennilega heimsmeistarar í gengisfellingum. Krónan hafi hrunið með reglulegu millibili í gegnum tíðina vegna óraunsærra hugmynda um verðgildi hennar.

Vill frysta gengi krónunnar

Friðrik segir að Seðlabankinn verði að skoða hvort við stefnum í gamalt far. Það sé kannski ekki hægt að gera mikið í þeirri styrkingu sem þegar hafi átt sér stað. Nú tali greiningadeildir og aðrir spámenn hins vegar um að krónan eigi eftir að styrkjast enn frekar langt fram á næsta ár.

„Ég held að í besta falli þyrfti að taka þá pólitísku ákvörðun að frysta gengið eins og það er í bili. Því svona hraðar breytingar eins og við erum að horfa á núna eru gríðarlega óheppilegar.

Á árunum eftir hrun þegar krónan féll í verði var mjög hagstætt fyrir útlendinga að koma til Íslands og alþjóðleg umfjöllun um landið sem ferðamannaland hefur almennt verið jákvæð. Ferðaskrifstofur horfa aftur á móti fram í tímann og þetta viðhorf gæti breyst hratt og kallað fram neikvæða umfjöllun um dýrtíðina á Íslandi með tilheyrandi fækkun ferðamanna, t.d. frá Bretlandi sem flykkst hafa hingað á undanförnum árum.

„Ég vona auðvitað að til þess komi beinlínis ekki. En það er hárrétt að gagnvart Bretlandi  kemur þetta gríðarlega illa út. Það á ekki bara við um ferðamennskuna heldur fiskinn líka ekki síður,“ segir Friðrik en Bretland er mikilvægasta útflutningsland Íslendinga á fiski.

Þá segir hann að verð á innfluttum aðföngum hafi ekki lækkað í samræmi við styrkingu krónunnar.

„Aðföngin sem eiga að hafa verið að lækka sem svarar til styrkingar krónunnar hafa alls ekki skilað sér. Þannig að þetta virkar á annan veginn. Þetta dregur úr krafti útflutningsfyrirtækjanna og við lifum jú á útflutningi og eykur væntanlega kaupmátt til skamms tíma og þar með einkaneyslu landsmanna, en í heildina er þetta vond þróun,“ segir Friðrik Pálsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×