Innlent

Óttast að ákærur á hendur heilbrigðisstarfsfólki muni kosta mannslíf

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá fyrirtöku málsins í júní.
Frá fyrirtöku málsins í júní. vísir/pjetur

„Ef þessum ákærum verður haldið til streitu þá álít ég það sem svo að það gæti kostað heilsutjón og mannslíf. Það eru engir hagsmunir fyrir almannavaldið að sækja fólk til saka við svona aðstæður,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður hjúkrunarfræðingsins sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi.



Fyrirtaka í málinu var fyrirhuguð í dag, en var frestað eftir að Einar féll frá frávísunarkröfu sinni. Hann segir að dómari þurfi að skoða rökin fyrir frávísun, hvort sem gerð verði krafa um það eða ekki. Það verði gert við aðalmeðferð málsins í nóvember. „Ég vildi frekar að þetta færi fram í einu lagi, þegar réttarhöldin fara fram, heldur en í tvennu lagi. Þannig að fyrst verður fjallað um frávísunina og svo efnið.“



Þetta er í fyrsta sinn sem starfsmaður Landspítalans er ákærður fyrir atvik af þessu tagi. Einar telur að heilbrigðiskerfið muni breytast, verði starfsmaðurinn dæmdur.



„Ég held því blákalt fram að með því að sækja heilbrigðisfólk til saka sé verið að stofna lífi sjúklinga í hættu, sökum þess að það verður illmögulegt að rannsaka atvik sem upp koma á spítölum og læra af þeim, því þá forðast menn að tjá sig til að fá ekki á sig ákæru. Refsilöggjöfin er til að vernda líf og heilsu fólks en ekki til að setja þessa hagsmuni í hættu eins og gert er með ákærunni,“ segir hann.



Hjúkrunarfræðingurinn heldur fram sakleysi sínu í málinu. Ríkissaksóknari lagði fram ákæru á hendur honum og Landspítalanum í maí fyrra, en hjúkrunarfræðingurinn er sakaður um röð mistaka sem dró sjúkling til dauða árið 2012.



Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 4. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir

Ekkja mannsins féll frá bótakröfu

Fyrirtaka í máli hjúkrunarfræðingsins sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×