Innlent

Óttar geðlæknir fundaði með gagnrýnendum sínum í Rótinni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Óttar var í viðtali við Fréttablaðið.
Óttar var í viðtali við Fréttablaðið. Vísir/Ernir
Þær Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar og Guðrún Ebba Ólafsdóttir ráðskona í Rótinni, félags um málefni kvenna með áfengis- og fíkniefnavanda, funduðu í dag með Óttari Guðmundssyni geðlækni. Hann hafði haft samband við ráðskonurnar í vikunni og óskað eftir fundi. Óttar óskaði eftir fundinum í kjölfar þess að Rótin sendi erindi á siðanefnd Læknafélags Íslands, vegna ummæla hans í viðtali í Fréttablaðinu.

Félagið óskaði „eftir áliti siðanefndar Læknafélags Íslands á því hvort ummæli Óttars Guðmundssonar, í viðtali við Fréttablaðið 22. apríl, 2016, samræmist þeirri ábyrgð gagnvart einstaklingum og samfélagi sem fylgir starfi læknis samkvæmt siðareglum Læknafélags Íslands.“

Óttar ásamt þeim stöllum í Rótinni í dag.Mynd/Rótin
Viðtalið við Óttar vakti mikla athygli en fyrirsögn þess var „Enginn má lenda í neinu.“ Í viðtalinu sagði Óttar meðal annars: „Menn hafa sætt sig við það að lífið er enginn dans á rósum og það gengur á ýmsu. En nú lifum við á tímum þar sem er krafa um að enginn lendi í neinu nokkru sinni. Við eigum að vera varin fyrir öllu áreiti. Ef eitthvað kemur fyrir okkur rjúkum við upp, hringjum í blöðin og látum vita af þessu eða eigum rétt á áfallahjálp.“ 

Sjá einnig: Orð Óttars vekja hörð viðbrögð: Skiptir máli að opna sig þegar manni líður illa

Viðtalið vakti mikla athygli og stigu hinir ýmsu einstaklingar fram og gagnrýndu orð Óttars.



Á fundinum í dag, uppstigningardag, ræddu læknirinn og ráðskonurnar saman af hreinskilni að því er segir í tilkynningu frá Rótinni.

„Óttar tjáði okkur að hann bæri mikla virðingu fyrir starfi og baráttumálum Rótarinnar. Hann baðst afsökunar á þeim særindum sem hlutust af orðum hans, ætlun hans hafi síst verið að gera lítið úr nauðsyn þess að vinna úr alvarlegum áföllum. Að lokum varð það að samkomulagi að Óttar kæmi á umræðukvöld hjá Rótinni og fræddi félagskonu um Hallgerði langbrók, áföll hennar og úrvinnslu þeirra, við fyrsta tækifæri,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Enginn má lenda í neinu

Óttar Guðmundsson ræðir ferilinn, fíknisjúkdóma og dálæti fjölmiðla á viðtölum við ,,aumingja vikunnar“. Hann segir engan geta lifað algjörlega sléttri og felldri tilveru. Manneskjan þoli nefnilega ansi margt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×