Ótrúlegur sigur botnliðsins á Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vonbrigðin leyndu sér ekki í augum leikmanna Liverpool eftir leikinn
Vonbrigðin leyndu sér ekki í augum leikmanna Liverpool eftir leikinn Vísir/Getty
Botnlið Swansea vann frækinn sigur á Liverpool í lokaleik 24. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á heimavelli sínum í kvöld.

Alfie Mawson skoraði eina mark leiksins á 40. mínútu.

Liverpool vann stórkostlegan sigur á áður ósigruðu liði Manchester City í síðustu umferð þar sem liðið skoraði fjögur mörk, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir komu þeir rauðklæddu boltanum ekki í netið.

Pressan að marki Swansea var mikil á loka mínútunum og átti Roberto Firmino meðal annars skalla í stöngina í uppbótartíma. Mohamed Salah og Sadio Mane fóru einnig illa með góð færi til þess að tryggja sér stig úr leiknum.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Swansea á heimavelli síðan Carlos Carvalhal tók við liðinu og náði liðið að jafna West Bromwich Albion að stigum með sigrinum. Svanirnir eru þó enn í botnsætinu á markatölu.

Swansea reynist Liverpool erfiður andstæðingur, en liðið hefur unnið þá rauðklæddu í þremur af síðustu fimm viðureignum liðanna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira