Lífið

Ótrúlegt ár að baki hjá Frikka Dór: Náði þremur lögum inn á topp 10

Stefán Árni Pálsson skrifar
Söngvarinn Friðrik Dór hefur átt frábært ár.
Söngvarinn Friðrik Dór hefur átt frábært ár. Vísir/Magnús Hlynur
„Það er búið að ganga rosalega vel og maður er bara þakklátur fyrir þær móttökur sem músíkin mín hefur verið að fá,“ segir Friðrik Dór Jónsson, betur þekktur sem Frikki Dór, sem náði þeim frábæra árangri að koma inn þremur lögum á topp tíu á árslista FM957 fyrir árið 2016.

„Þetta er bara frábært og ótrúlega gaman að ná þessum árangri. Maður er í raun hálf orðlaus yfir þessu.“

Lögin sem Friðrik Dór kom inn á lista voru; Ástin á sér stað (9. sæti), Fröken Reykjavík (7. sæti) og lagið Dönsum (eins og hálfvitar) sem var næst vinsælasta lag ársins á FM957.

„Á nýju ári langar mig að taka upp meiri músík en líka hugsa meira um að koma fram og jafnvel að stækka það aðeins hjá mér. Mun vonandi halda einhverja stórtónleika, eða kannski tónleika sem eru ekki í 250-300 manna sal. Svo ætla ég að reyna að gera tónlist sem fær vonandi áfram svona góðar viðtökur.“

Hér að neðan má hlusta á viðtal sem Kristín Ruth tók við Frikka Dór á FM957 í gær.

Hér fyrir neðan má síðan heyra lögin þrjú:





Fleiri fréttir

Sjá meira


×